01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

84. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Mér var ljóst, að eftir þessu frv. mætti skipta jörðum. En ég er samt sem áður á þeirri skoðun, að þó að þetta verði samþ., muni börnin ekki verða tryggari við sveitina en áður var. En ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að eftir gildandi l. sé þeim, sem tekur við óðali, skylt að framfæra óðalsbónda fyrrverandi eða konu hans. En nú er bætt við ákvæðið um þessa skyldu: „enda sé honum það ekki um megn“. Það er enginn vafi á því, að þetta hlýtur að skiljast sem undanþáguheimild, sem hefur ekki fyrr verið í l. um þetta atriði. En ef hann getur ekki framfært fyrrverandi óðalsbónda eða konu hans, ætti sú skylda að vera fullkomlega eins rétthá og krafan um greiðslu fylgifjár samkv. ákvæðum frv. Hann ætti að fyrirgera óðalsréttinum, ef hann gæti þetta ekki, eins og ef hann gæti það ekki vegna fátæktar. Svo er seinna í gr. tekið fram til viðbótar, að sá, sem taki við óðalinu, skuli haga svo til, að fyrirrennari hans og maki geti dvalizt áfram á jörðinni, ef þau óska þess, enda sé honum ekki meira mein að en svo, að við megi una. Með þessu er ekki gert ráð fyrir, að maðurinn geti þetta ekki fyrir sakir fátæktar, og er þetta mikill munur hjá því, sem var í gömlu lögunum.