16.11.1943
Efri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

160. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Bjarni Benediktsson:

Hv. frsm. gat þess, að frv. hefði ekki enn verið sent hafnarnefnd Reykjavíkur. Ég vil heita því, þar sem þar mun aðallega vera formsatriði einu ófullnægt, að sjá um, að frv. þurfi ekki að tefjast svo hjá yfirvöldum bæjarins, að það hindri framgang þess á þinginu. Mér virðist frv. reist á mjög skynsamlegum grundvelli og haganlega fyrir komið, bæði um hlutdeild ríkis og bæjar í framkvæmd aðalverksins og um fyrirhugaða samvinnu hins opinbera og einstaklinganna, þar sem ríki og bær eiga að sjá um það, sem einstaklingum er ofvaxið, en þeir að taka að sér atvinnureksturinn. Þetta er á réttri lausn grundvallað í einu og öllu. Ég vildi þakka n. till. hennar og taka undir það, að þetta nauðsynjamál þarf að afgreiða sem fyrst.