11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

160. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Emil Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv., og skal ég ekki verða til þess að tefja fyrir öðrum málum með því að lengja umr. um það, en mig langar til að benda á, að hér er farið inn á nýja braut í þessu frv., sem ég er ekki alveg viss um, að allir þm. hafi gert sér fyllilega ljósa. Í fyrsta lagi er slegið föstu með þessu frv., að nú hér eftir verði taldar sem styrkhæfar hafnargerðir, þegar komið er upp dráttarbrautum og þess háttar, og er ekki nema gott um það að segja, að þessi mannvirki séu talinn hluti af höfnunum og þau styrkt. En það er annað nýmæli í þessu frv., sem ég tel, að orkað geti nokkru meira tvímælis, og ég vildi aðallega vekja athygli á. Það er það, að hér er farið fram á ákveðinn styrk til hafnarvirkjunar, án þess að gerð sé tilraun til þess að gera sér grein fyrir, hvað mikið þessi mannvirki muni kosta. Í grg. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá hefur n. ekki talið það vera innan síns verkahrings að leggja fram kostnaðaráætlun um byggingu þessara mannvirkja. Til þess hefði þurft mikla aðstoð, langan tíma og margvíslegar rannsóknir, sem lúta beint að framkvæmd verksins. N. telur það ekkert aðalatriði, að slík heildaráætlun um kostnað liggi fyrir nú og að undirbúningur hennar gæti jafnvel tafið fyrir brýnustu framkvæmdum, því að vitanlega mundi taka langan tíma að gera öll þau mannvirki, sem ætlað er rúm á hinu afmarkaða svæði.“

Þetta segir n., og það er víst mála sannast, að hún hefur enga tilraun gert til þess að gera sér nokkra grein fyrir því, hvað þessi mannvirki muni kosta. Í frv. er lagt til, að ríkissjóður veiti styrk, sem miðaður er við 5 millj. kr. kostnað, en þessi kostnaður getur allt eins orðið 15 millj. eða jafnvel 50 millj. eins og 5 millj., og ég tel, að það sé allvafasamt að slá föstu, að ríkið skuli leggja fram ákveðinn hluta kostnaðar af verki, sem engin áætlun er um og engin tilraun til áætlunargerðar liggur fyrir um, áður en verkið er hafið. Það hefur alltaf verið leitazt við, þegar hafnarl. hafa verið samþ. eða ríkisstyrkur ákveðinn til mannvirkja, sem átt hefur að framkvæma, að gera sér a. m. k. að einhverju leyti grein fyrir því, hve mikill kostnaður verði við framkvæmd verksins. N. hefur lýst yfir því, eins og ég las upp úr grg., að hún teldi það utan við sinn verkahring að athuga um kostnað, og eru sem sagt möguleikar á því, að kostnaðurinn geti allt eins orðið 15 millj. eins og 5 millj. Um það liggja engar upplýsingar fyrir. Mér er ekki ljóst, þó að þetta mál sé gott mál og þarft, að nauðsynlegt sé að hraða því svo, að þessar upplýsingar geti ekki legið fyrir, a. m. k. frumdrög að þeim.

Ég bendi aðeins á þetta, af því að það liggur ekki fyrir og ég er ekki viss um, að allir þm. hafi gert sér ljóst, að þessi upphæð, sem nefnd er í frv., muni ekki nægja til þess að gera þau mannvirki, sem hér er farið fram á. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram við þessa umr.