08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

27. mál, fjárlög 1944

Björn F. Björnsson:

Herra forseti. Ég flyt hér tvær brtt. við fjárlfrv., á þskj. 546, III. og V. Sú fyrri er um hækkun á framlagi til Miðeyjarvegs úr 25 þús. í 35 þús. kr. Um þennan veg skal ég sérstaklega taka fram, að hann er með lengstu þjóðvegum í Rangárvallasýslu, þeirra sem ekki liggja beint gegnum sýsluna. Af þessum vegi eiga 30–40 bændur að hafa gagn, en hann liggur nú undir skemmdum, vegna þess að ekki hefur verið borið ofan í hann á 5–7 km kafla. Hreppsn. hefur snúið sér til okkar þm. Rang. til að fá framlagið hækkað, eins og farið er fram á í þessari till. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta, en þetta er sem sagt einn af þýðingarmestu vegunum hér, og vænti ég þess, að till. verði samþ.

Hin till. er varðandi veg í Rangárvallasýslu, að veita 4 þús. kr. til Innhlíðarvegar í Fljótshlíð. Þetta er ekki þjóðvegur, en á undanförnum árum hefur verið gerð tilraun að koma honum í þjóðvegatölu. Hann liggur frá Múlakoti inn að Bleiksá og er mikið notaður af ferðafólki á sumrin og svo Fljótshlíðarbændum sjálfum. Árið 1937 voru veittar aukalega til þessa sama sýsluvegar 2 þús. kr. En nú stendur sérstaklega á, því að þessi vegur varð fyrir skakkafalli af völdum skriðufalls, og er erfitt fyrir sýslubúa að standa undir lagfæringu vegarins. Ég vænti því, að hið háa Alþ. sjái sér fært að samþ. þessa 4 þús. kr. aukatill. Aðrar till. flyt ég ekki nema ásamt öðrum, sem munu gera grein fyrir þeim.