10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

152. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkv. tilmælum forsrh., sem fer með félagsmálefni, og er samið af mþn., sem Jóhann Sæmundsson þáv. félmrh. skipaði í marzmánuði s. l. samkvæmt þál., sem samþ. var á Alþ. 21. maí 1942. Þessari mþn. var með bréfi ráðh. gefið ákveðið verkefni, þ. e. a. s. að endurskoða alþýðutryggingalögin, en þau voru ákveðin með l. frá 1936–1937 ásamt breyt., sem síðar hafa verið á þeim gerðar. Rétt um sama leyti og þessi mþn. var skipuð fól sama ráðuneyti þrem sérfræðingum að athuga fjárhagsgrundvöll undir heildartryggingar hér á landi. Þessum athugunum sérfræðinganna er ekki lokið, en mér er kunnugt um, að þeir hafa þegar safnað að sér miklum gögnum og eiga von á enn fleirum. Það, sem mér skilzt hafa vakað fyrir félmrh. með útnefningu þessara þriggja manna, er, að hún fengi það verkefni að steypa öllum almennum tryggingum saman í eina heild, og mþn., sem vann að samningu þessa frv., er einhuga á þeirri skoðun, að að þessu beri að stefna.

Tryggingagreinum fjölgar nú mjög. Þær eru með mismunandi sniði að því er snertir réttindi til þeirra, er trygginganna njóta og aðstandenda, hvernig fjár skuli aflað, innheimtu hagað og hvernig gjöldum skuli jafnað niður. Ég tel að eftir því sem tryggingar aukast, verði þetta fyrirkomulag með margar mismunandi tryggingagreinar eftir ólíkum reglum mjög erfitt og þungt í vöfum. Eins og ég sagði áðan er n. einhuga um það, að að því marki beri að stefna að koma öllum þessum tryggingagreinum í eina heild. Annars er þetta verkefni fyrir utan það starfsvið, sem mþn. var markað með bréfi ráðh., því að henni var eingöngu ætlað að endurskoða tryggingalögin frá 1936–1937 með þeim breyt., sem síðar hafa verið á þeim gerðar.

Í raun og veru er það markmið allra trygginga að afstýra eða bæta úr skorti, sem orsakast af ástæðum, sem þeim tryggðu eru ósjálfráðar, hvort sem um er að ræða sjúkdóma, slys, örorku, elli eða atvinnuleysi. Þetta er gert með tvennum hætti: annars vegar að bæta hið beina tjón eða kostnað, sem af þessu leiðir, svo sem læknishjálp, lyf, umbúðir, sjúkravist eða annað slíkt, og hins vegar að bæta atvinnutjón og tekjumissi, sem hlutaðeigandi verður fyrir eða bíði hans og aðstandenda hans. Meginþáttur allra trygginga hlýtur jafnan að vera starfsörorkutrygging fyrir alla þá sem eiga afkomu sína eða sinna undir vinnu sinni. Og þá skiptir það kannske mestu máli fyrir einstaklinginn, hvort atvinnutjónið og tekjumissirinn. sem því fylgir, stafar af sjúkdómum, slysi, örorku eða af því að starfskraftarnir þrjóta fyrir elli sakir, atvinnuleysi og að starfsorkan er óseljanleg um lengri eða skemmri tíma. En eins og ég sagði áðan, er verksvið n. takmarkað við þann ramma, sem nú er settur með alþýðutryggingal., svo að fullkomin endurskoðun og athugun verður látin bíða, geri ég ráð fyrir, þar til niðurstöður sérfræðinganna liggja fyrir. Þó þykir mér rétt að geta þess, að n. hefur rætt sérstaklega um tvö atriði í sambandi við þessa endurskoðun, sem henni var falin, þó að hún telji sér ekki fært á þessu stigi að bera fram ákveðnar till. um þau efni. Fyrra atriðið er um bætur fyrir dauðaslys, sem eru ekki bætt samkvæmt gildandi lögum. N. lét fara fram rannsókn á því, hversu mörg dauðaslys um væri að ræða, sem trygging nær ekki til nú, og sú rannsókn leiddi í ljós, að réttur helmingur dauðaslysa er bættur með slysatryggingu. Auk þess eru sum önnur slys bætt með líftryggingu. N. taldi þó að þessari athugun lokinni, að það væri mjög torvelt að fella slíkar breyt., sem hér um ræðir, inn í núgildandi alþýðutryggingalög og sér sér því ekki fært að bera fram slíka till. að svo stöddu. Þá var einnig rætt nokkuð í n. um nauðsyn þess að undirbúa eða koma upp barnatryggingum í því formi, að greiddir yrðu uppeldisstyrkir til þeirra fjölskyldna, þar sem fleiri en tvö til þrjú börn eru á framfæri sömu fyrirvinnu. Það byggist á þeirri skoðun, sem hefur rutt sér mjög til rúms, að þess sé tæplega að vænta, að ein fyrirvinna fyrir stórri barnafjölskyldu, jafnvel þó að atvinna sé sæmileg, geti tryggt börnum sínum jafngóð lífskjör og uppeldi og sú fyrirvinna, sem hefur fyrir færri börnum að sjá. Þó að það sé leiðinlegt til afspurnar, er það samt svo, að engar skýrslur eru til þessu varðandi til undirstöðu við rannsókn á þessu atriði. N. er það ljóst, að það færist meira og meira í það horf, að við útreikninga, bæði þegar um er að ræða kaup, verðlag og skatt eða annað, sem hefur áhrif á afkomu manna, er miðað við þarfir meðalfjölskyldu, sem venjulega er fjögurra til fimm manna fjölskylda, og er ein fyrirvinna fyrir þessum hópi. En það liggur í augum uppi, að það, sem er nægilegt fyrir mann með tvö til þrjú börn, er ófullnægjandi fyrir mann með fimm eða fleiri börn. En fyrst og fremst vegna þess, að engar skýrslur liggja fyrir um barnafjölda miðað við fyrirvinnu með tvö til þrjú börn, taldi n. sér ekki fært að bera fram ákveðnar till. um þetta, enda tími hennar naumur. Þá hefur n. farið yfir öll tryggingalögin í heild, en ekki getað gengið frá till. nema á þrem fyrstu köflunum. Einnig hefur hún gert nokkrar breyt. á kaflanum um ellilaun og örorkubætur, en þær eru á öðru frv.

Ég skal þá víkja að þeim breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði frá núgildandi l., en vil benda þm. á til leiðbeiningar, að á frv. því, sem útbýtt er í d. og er þskj. 360, eru prentuð með breyttu letri þau atriði, sem breyt. eru gerðar á. Sumpart eru það efnisbreyt. og sumpart orðalagsbreytingar. Breyt. á slysatryggingunum eru raunar þrenns konar. Í fyrsta lagi er svið trygginganna nokkuð víkkað frá því, sem nú er, þannig að fjölgað verður nokkrum starfsgreinum, sem eru tryggingarskyldar. Skylt verður að tryggja gegn slysum samkv. ákvæðum þessara laga starfsfólk, sem vinnur við þvottahússtörf og ræsti- og hreingerningavinnu í skólum, sjúkrahúsum, samkomuhúsum o. fl., eldhússtörf og sendisveinastörf, enn fremur héraðslækna og skipaðar ljósmæður. Samkv. frv. eru einnig allir þeir tryggðir, sem starfa að húsbyggingum nema útihúsum í sveitum, sem byggð eru úr torfi og grjóti, önnur en heyhlöður, svo og viðbætur og breytingar húsa í sveitum. En slíkar byggingar úr torfi og grjóti eru nú mjög fátíðar. Þótti ekki fært að sleppa þessu atriði, því að ákvæði um þetta hafa verið mjög á reiki. Í l. er svo fyrir mælt, að menn við húsbyggingar séu ekki slysatryggðir við önnur hús en þau, sem eru tvær hæðir auk þaks og kjallara.

Í öðru lagi er svo breyt. á stríðsslysatryggingunum, þannig að framvegis verður hætt að tryggja gegn slysum, sem stafa af ófriði eða styrjaldaraðgerðum, en þess konar slys hafa ekki verið undanþegin til þessa. Hins vegar gengur n. út frá því, að ef slíka atburði ber að höndum, verði þeir bættir með sérstökum ráðstöfunum. Meðan núverandi styrjaldarástand helzt og l. um stríðsslysatryggingu sjómanna haldast, skal þó greiða þeim, sem verða fyrir stríðsslysi, það, sem á kann að skorta, að bætur stríðsslysatryggingarinnar nemi sömu upphæð og slysabætur samkv. lögum þessum.

Í þriðja lagi eru breyt. um hækkun á dagpeningagreiðslum, og skal ég nú víkja að því. Dagpeningar eru samkv. gildandi l. kr. 5.00 á dag auk verðlagsuppbótar, en mega þó aldrei fara fram úr ¾ af dagkaupi mannsins við þá atvinnu, er hann hafði, þegar slysið varð. Frv. gerir ráð fyrir að hækka dagpeningana upp í kr. 7.50. Að öðru leyti gilda ákvæðin óbreytt áfram, hvað víðvíkur ¾ hlutunum. Þessi hækkun er gerð með hliðsjón af þeirri grunnkaupshækkun, sem orðið hefur í landinu miðað við vísitölu 250. Yrðu því dagpeningar alls með uppbót kr. 18.75 í allt að sex mánuði.

Þá eru og breyt. gerðar á dánarbótum, og skal ég rekja þær hér með fáum orðum. — Samkv. gildandi l. eru dánarbætur til ekkna 3.000 kr. miðað við vísitölu 250, sem verður 7.500 kr. með verðlagsuppbót. Í frv. er lagt til, að þessar bætur haldist óbreyttar. Ef ekkja eða ekkill er yfir 50 ára eða hefur tapað 50% eða meira af starfsorku sinni, greiðist auk þess lífeyrir til dauðadags, 960 kr. á ári, miðað við 100% örorku eða 67 ára aldur. Þetta er byggt á því, að í raun og veru er engin ástæða til þess að greiða stórkostlegar bætur til ekkna, sem eru ungar að aldri og færar um að vinna fyrir sér, hvernig sem að öðru leyti er ástatt. Hins vegar fá þær bætur greiddar í eitt skipti fyrir öll, en ekki lífeyrir til dauðadags, nema um örorku sé að ræða, og fá þær þá sæmilegan lífeyri. Sama sjónarmið er einnig lagt til grundvallar í till. um bætur til barna, sem misst hafa fyrirvinnu. Á það er minnzt í gildandi l., og samkvæmt þeim eru greiddar 100 kr. á ári með barni til 16 ára aldurs auk verðlagsuppbótar. Samkv. frv. er hins vegar gert ráð fyrir 750 kr. á ári til 16 ára aldurs auk verðlagsuppbótar. Það svarar til 1.875 kr. á ári miðað við vísitölu 250 eða grunnupphæð 100 kr. hærri en meðlagskostnaður er ákveðinn með börnum, sem bærinn greiðir fyrir vegna vanrækslu barnsföður. Sé barn munaðarlaust, verða bætur hærri eða 1.200 kr. til sama aldurs auk uppbótar. N. gerir ráð fyrir því, að þessi lífeyrir eigi að vera nægur til þess, að barn þurfi ekki að líða skort af þeim sökum, að fyrirvinna falli frá. Þá er gert ráð fyrir því, að bætur til foreldris hækki upp í 1.000–3.000 kr. til hvors foreldris fyrir sig, eftir því, að hve miklu leyti það naut stuðnings hins látna við fráfall hans. Barn yfir 16 ára að aldri, sem var á framfæri hins látna vegna örorku, fær í dánarbætur 1.000 kr.–3.000 kr., eftir því, að hve miklu leyti það var á framfæri hins látna við fráfall hans. Sem sagt aðalbreytingarnar á dánarbótum eru hækkun á barnalífeyri og ákveðnum lífeyri til ekkna, sem eru örkumla eða yfir 50 ára.

Á örorkubótum eru gerðar verulegar breyt. Samkv. gildandi l. eru nú greiddar fyrir 100% örorku 6.000 kr. miðað við vísitölu 250, sem verða alls 15.000 kr. Í frv. er hins vegar lagt til, að í stað þess að borga þessa upphæð verði greiddar fyrir fulla örorku 1.200 kr. á ári sem örorkulífeyrir auk verðlagsuppbótar, en lækkar hlutfallslega, eftir því sem starfskraftar eru meiri. 100% örorka er það, ef maður er svo örkumla, að hann vanti algerlega starfsorku. Ef örorka er metin 50% eða meiri, skal aðstandendum hans greiddur lífeyrir og bætur eins og ef hann væri fallinn frá. Aðalbreyt. á þessum ákvæðum frá gildandi l. eru um hækkun á lífeyri, ef örorkan er metin 50% eða meiri, og einnig greiðslurnar til vandamanna eftir sömu reglum og um dauðaslys væri að ræða, þó þannig, að þessar bætur og lífeyrir fari lækkandi, eftir því sem örorkan er minni, og falli niður með öllu, ef maður hefur misst minna en helming starfsgetu sinnar. Ef starfsorkutap manns er innan við 50%, er tryggingunni heimilt að borga út bætur í einu lagi, sem jafngilda lífeyri hans. Er þetta byggt á því, að slíkir menn, sem hafa helming starfsorku eftir, geti oft og einatt skipt um atvinnu eða búið í haginn fyrir sig og tryggt afkomu sína til frambúðar með því að fá fé handa á milli til þess að koma sér fyrir.

Þetta eru þær meginbreytingar, sem um er að ræða á bótagreiðslunum. Hversu mikinn kostnað þessar breyt. muriu hafa í för með sér. er ekki unnt að segja um með neinni vissu. N. hefur hins vegar látið gera um þetta eins ýtarlegar áætlanir og unnt er. Samkvæmt þeim telst okkur svo til, að gera megi ráð fyrir, að iðgjöld sjómannatryggingarinnar, sem nú eru 6.00 á viku, þurfi að hækka um 5.00 kr. til þess að standast þennan kostnaðarauka, miðað við vísitölu 250. Hækkunin þarf ekki að vera eins mikil. á iðgjöldum í aðalflokkum iðntryggingarinnar, sem eru nú frá kr. 0.70–2.70 á viku, en hækkunin mundi nema samkv. frv. kr. 0.60–2.00. Eins og ég sagði áðan, er hækkunin meiri á sjómannatryggingunum, og verða því iðgjöldin þar kr. 10.00–11.00 á viku, en ég vil benda á í sambandi við það, að þetta er þó ekki nema fimmföld sú hækkun, ef miðað er við verðlag fyrir stríð. Auk þess er það von manna, að stríðsslysatryggingin geti hætt störfum, áður en mjög langt um líður, og þá verði hægt að lækka iðgjöldin.

Ég vil geta þess í sambandi við þá aukningu, sem hér er gert ráð fyrir, að ég sé ekki ástæðu til, að hv. þm. láti sér hana vaxa í augum.

Vil ég þá víkja að breyt., sem lagt er til, að gerðar verði á sjúkratryggingum.

Skv. gildandi l. ber þeim, sem hafa 7.000 kr. skattskyldar, að greiða iðgjöld til sjúkrasamlagsins. Framvegis eiga að gilda sömu reglur um þá og aðra. Allir eiga að hafa sama rétt til fríðinda, án þess að tillag til sjúkrasamlaga fylgi. Nú greiðir sjúklingurinn kostnað á sjúkrahúsi. Því er breytt þannig, að hann greiði föstum heimilislækni 5/6 af kostnaðinum, en 1/6 greiði hinir tryggðu, um leið og þeir vitja læknis. Meiri hl. var þeirrar skoðunar, að þetta ákvæði væri nauðsynlegt til þess að draga úr ónauðsynlegu kvabbi. Þá er og gert ráð fyrir, að samlagið greiði sjúkrahúsvist eftir þörfum, að ráði læknis.

Nú hefur verið samþ. breyt. á l. um ríkisframfærslu sjúkra og örkumla, þannig að nú eiga allir, sem eru haldnir langvarandi, alvarlegum sjúkdómum rétt á að njóta sjúkrahúsvistar. Áður greiddi ríkið 4/5 og sveitar- eða bæjarfélag 1/5, ef fjárhagsástæður sjúklingsins voru þannig, að þess taldist þörf, eftir því sem segir til í lögunum. Ekki er hægt að segja, hve mikinn kostnaðarauka þetta bakar, en líklega er hann ekki meiri en sjúkrasamlögin velflest rísa undir.

Gert er ráð fyrir, að samlagið greiði í fæðingarstyrk 40 kr. að viðbættri verðlagsuppbót. — Þá er skylt að greiða dvalarkostnað sængurkvenna í sjúkrahúsi eða fæðingarstofnun, þótt eigi hafi þær komið beint af heilbrigðisástæðum, heldur og heimilisástæðum. Sjúkrasamlag Reykjavíkur framkvæmir þetta þannig, svo að ekki er hér um breyt. að ræða fyrir stærstu sjúkrasamlögin.

Ég vil taka það fram, að nú er heimild í lögum um að takmarka greiðslu á miður nauðsynlegum lyfjum, og verður að meta það á hverjum tíma.

Röntgenmyndatökur skal sjúkrasamlagið greiða að 1/3. Þær eru oftast nauðsynlegar, og þykir sjálfsagt að greiða þær að þessum hluta. Ýmis samlög greiða nú að verulegu leyti þennan kostnað.

Þetta eru meginbreyt. á þeim fríðindum, sem sjúkrasamlögunum ber að veita, en einstök samlög geta ákveðið með samþykktum að veita meiri fríðindi. Tryggingastofnunin og ráðherra úrskurða, hvort samlagið getur mætt þeim kostnaði.

Lagt er til, að framlag ríkis og bæjar breytist þannig, að framlag frá hvorum þessum aðila sé hækkað úr 1/4 í 1/3 hluta. Tillag ríkis og bæjar móti iðgjaldi hvers meðlims samlagsins sé 662/3%. — Það ákvæði, að greiðslan verði ekki hærri en 12 kr. á ári, haldist óbreytt.

Það hefur verið rætt í n., hvort ekki mundi tími til kominn að lögbjóða sjúkrasamlög um allt land. Eftir því sem þeim fjölgar, verða gloppurnar meiri á milli þeirra. Svörin við þessu vandamáli hafa verið nokkuð mismunandi. Allmargir eru því fylgjandi að taka upp að lögbjóða sjúkrasamlög um allt land. En n. hefur orðið ásátt um að koma ekki með till. í þessa átt, heldur hallast að þeirri stefnu, sem tekin er í 52. gr. frv., um atkvgr. um það, hvort stofna skuli sjúkrasamlög alls staðar þar, sem þau eru ekki þegar tekin til starfa. Eftir reynslu undanfarinna ára mundu mjög víða verða stofnuð sjúkrasamlög. Alls staðar þar, sem atkvgr. hefur farið fram, hefur hún orðið jákvæð. Eftir þá atkvgr., sem fyrirhuguð er, verður hægt að meta það, hvort hægt verður að láta samlögin koma af sjálfu sér eða með öðru móti. Nm. eru í öllum höfuðatriðum sammála um það, sem snertir þennan kafla alþýðutryggingal., og er nauðsyn á að koma þessum breyt. í framkvæmd nú á þessu þingi. Vildi ég mælast til þess, að hv. þm. vildu styðja þessa viðleitni okkar, ef svo mætti segja slysatrygginganna vegna.

Enn eru ýmis atriði í tryggingalöggjöfinni ekki í góðu lagi. Vil ég nefna dæmi.

Ákveðið er, að slysatrygging verkamanna í landi og sjómanna (annarra en þeirra, sem sigla á hættusvæðum), falli ekki undir stríðstryggingalögin. Nú skulum við segja, að tveir menn farist hér úti fyrir ströndinni, annar tryggður skv. stríðsslysatryggingal., en hinn skv. þeim almennu.

Trygging þess fyrrnefnda er þrisvar sinnum hærri en hins. Við slíkt misrétti er ómögulegt að una, og þarfnast það lagfæringar.

Vil ég að lokum mælast til, að málið fari til heilbr.- og félmn.umr. lokinni.