08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

27. mál, fjárlög 1944

Bjarni Ásgeirsson:

Ef á að gera brtt. við fjárlfrv. með syndum þm. — þ. e. a. s. brtt., sem eru of seint fram komnar, þá má segja, að þeir hafi nú fengið aflát fyrir syndir sínar, bæði drýgðar og ódrýgðar, — en mínar eru allar ódrýgðar, þ. e. allar óframkomnar.

Þá er fyrst brtt. við 11. gr. um hækkun á liðnum „millimat“. Það eru áætlaðar 10 þús. kr. Þetta mun hvergi nærri hrökkva, samkv. fenginni reynslu. Það minnsta, sem hægt er að leggja upp með, er 50 þús. kr., eins og ég hef áætlað.

Þá leyfi ég mér að bera fram till. um 100 þús. kr. framlag til brúa á sýsluvegum gegn tilskildu framlagi annars staðar að og eftir ákvörðun ríkisstjórnar.

Þá flyt ég ásamt 3 öðrum hv. þm. brtt. við 14. gr. um að veita nokkra fjárhæð til Hallgríms Helgasonar tónskálds, til þess að vinna að endurbótum á söngkennslu í skólum í samráði við fræðslumálastjóra. Söngkennsla í skólum hér á landi er mjög ófullkomin, og það jafnvel þar, sem aðstaðan er bezt. Það má segja, að henni hafi hrakað mjög nú um langa hríð, eða síðan Jónas Helgason tónskáld var hér söngkennari í skólum Rvíkur. En við flm. álítum þennan þátt í kennslustarfi skólanna svo mikils virði, að það sé óviðunandi að hann sé ekki tekinn föstum tökum frá grunni, og þá fyrst í barnaskólum landsins. Því þó að ýmislegt sé gert af góðum mönnum til að halda uppi söngmennt í þessu landi, þá er það sá útlendi „jazz“söngur, sem virðist vera að leiða æskuna á villigötur og útrýma öðrum söng og skáldskap um leið, með því hnoði, sem tengt er við erlendan „jazz“ og er tími til kominn að rísa á móti þessum ófögnuði. Spor í þessa átt er því það heillaríkasta spor, sem stigið verður um söngmennt landsins, því að börnunum verður að byrja að kenna og þá í sambandi við skóla landsins. Þá óskum við, að hv. Alþ. vilji veita þessari till. brautargengi.

Þá flyt ég aðra brtt., og er hún einnig við 14. gr., þess efnis, að veitt verði lítils háttar fjárhæð til Skallagrímsgarðs í Borgarnesi. Þetta er skrautgarður, sem kvenfél.- í Borgarnesi er að fegra og prýða, og er hann til fegurðarauka fyrir staðinn og til minningar um landnámsmann þann, er byggði Borgarnes. Nokkur undanfarin ár hefur Alþ. styrkt þessa starfsemi kvenfélagsins með 1000 kr. styrk í fjárl. Þessi styrkur er nú ekki tekinn upp í fjárl., en ég ber fram till. um, að hann verði tekinn upp eins og undanfarin ár. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái sér fært að veita liðsinni sitt til þessa litla styrks.

Þá á ég brtt. um lítinn fjárstyrk til ljóslækninga í Borgarnesi. Það hefur verið haldið uppi ljóslækningastofu í Borgarnesi af nokkrum borgurum þar, og hefur hún notið stuðnings bæði borgaranna í Borgarnesi og annarra héraðsbúa í Borgarfirði. En þessi félagssamtök hafa litlum fjármunum úr að spila, og hefur Alþ. veitt lítils háttar stuðning til þessarar starfsemi, en hún féll þó niður s. l. ár, en ég legg nú til, að þessi starfsemi verði upptekin að nýju og Alþ. veiti til þess 1000 kr. styrk.

Þá ber ég fram brtt. við 18. gr. um eftirlaun til Þorleifs Erlendssonar kennara. Hann er einn af elztu kennurum landsins og hefur síðan um aldamót verið kennari og lagt mjög mikið á sig og unnið þarft verk og víða hlaupið í skörðin, þar sem illa hefur gengið að fá kennara. Nú er hann orðinn gamall maður og lasburða, eins ag eðlilegt er um aldraða menn, en félítill, og legg ég því til, að honum verði veittur ofurlítill styrkur sem eftirlaun í 18. gr.

Þá eru að lokum tvær till., sem ég flyt ásamt hv. þm. V.-Húnv. Önnur er um 50 þús. kr. styrk til nýbýla, til þess að bæta úr brýnustu nauðsyninni til aðstoðar þeim mönnum, sem byggt hafa nýbýli á undanförnum árum, þegar dýrtíðin var sem mest, og lent hafa í fjárhagsörðugleikum vegna hins gífurlega kostnaðar, sem hlaðizt hefur á þessa menn vegna þessarar starfsemi þeirra á undanförnum árum. Styrkveitingar samkvæmt nýbýlalögunum og fjárl. eru mjög takmarkaðar, svo að ekki er hægt samkvæmt þeim að veita þessum mönnum þann stuðning, sem nauðsynlegur er til þess, að þeir komist út úr þeim erfiðleikum, sem þeir hafa komizt í vegna dýrtíðarinnar við þessi brautryðjendastörf sín um nýbýlamyndun. Við leggjum til, að veittur verði 50 þús. kr. styrkur, sem nýbýlastjórn geti varið til þess að létta mestu erfiðleikunum af þeim mönnum, sem erfiðast eiga með að komast út úr þessum vanda.

Þá leggjum við til að heimila 100 þús. kr., eins og gert er í yfirstandandi fjárl., til uppbótar á þann byggingarstyrk, sem veittur er samkvæmt l. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að það fé, sem veitt er til þeirra hluta, hrekkur hvergi nærri til vegna dýrtíðarinnar. Við höfum ekki séð, að unnt væri að greiða fyrir eða veita stuðning öllum þeim, sem hafa orðið að leggja út í kostnað í þessum efnum, og höfum því ekki séð annað fært en fara fram á, að þessi upphæð, 100 þús. kr., verði heimiluð til þessara uppbóta. — Ég skal svo ekki þreyta menn með langri ræðu, en vil vænta þess, að menn veiti þessum till. þann stuðning, sem er nauðsynlegur til þess, að þær nái fram að ganga.