10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

152. mál, alþýðutryggingar

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Herra forseti. Út af fyrirspurn, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur beint til mín út af skipun manna í þessa n., vil ég segja nokkur orð.

Við athugun á því, hvaða menn eru í þessari n., þá verður það ljóst, að það eru ákveðnir pólitískir fulltrúar, að maður getur sagt, fyrir tvo þingflokka — í n. Um það verður ekki villzt. En þó að þetta sé nú svo, þá hygg ég, að ráðh. sá, sem skipaði mennina, hafi ekki kosið þessa menn eftir ábendingu frá viðkomandi flokkum, heldur hafi hann valið mennina eftir því, sem honum þóttu hæfileikar vera fyrir hendi, og um leið þó tekið nokkurt tillit til þess, hvaða flokkum þeir tilheyrðu.

En þar sem hv. 6. þm. Reykv. ber sig upp undan því, að Sjálfstfl. eigi engan fulltrúa í þessari n., þá getur það náttúrlega — frá þröngu sjónarmiði séð — eiginlega verið alveg rétt. En ég hygg, að ráðh. sá, sem tilnefndi menn í þessa n., hafi talið hlut Sjálfstfl. eiginlega fyllilega borgið með því að velja fyrst og fremst þann mann í n., sem hefur mesta sérþekkingu til að bera af öllum nm. og vitað er, að hefur víst tilheyrt Sjálfstfl., Brynjólf Stefánsson. Og eftir því sem mér hefur skilizt af hv. 6. þm. Reykv., mun læknirinn Kristinn Björnsson, sem er í þessari n., líka vera sjálfstæðismaður. (BBen: Nei). Ekki það. En fyrir þessum ráðh. mun alls ekki hafa vakað að útiloka Sjálfstfl. frá áhrifum í þessari n., — síður en svo. En honum hefur kannske mistekizt þarna, þannig að Brynjólfur Stefánsson skoði sig aðeins sem sérfræðing í n., en alls ekki sem fulltrúa flokksins. En það er svo fjarri því, að ég — úr því að málið heyrir undir mig, vilji útiloka Sjálfstfl. pólitískt frá því að hafa áhrif á undirbúning þessa máls. En nú vill svo til, að þegar n. skilaði af sér þessum hluta, sem hér liggur fyrir, þá fór hún fram á það, að henni yrði falið að halda áfram störfum um elli- og örorkutryggingarnar. Og mér þótti það sjálfsagt mál. Ef mig hefði grunað þá, þegar ég skrifaði það bréf, að hlut Sjálfstfl. væri ekki nógu vel borgið í n., þá hefði ég leitað til fyrirsvarsmanna Sjálfstfl., áður en ég sendi bréfið. En nú, úr því að áherzla er lögð á það, eins og stendur í nál., að bætt verði úr þessum galla sem hv. 6. þm. Reykv. sem fyrirsvarsmann Sjálfstfl., og við getum þá komið okkur að niðurstöðu í því efni. En mér er óljúft, að Sjálfstfl. velji beinlínis mann í n., af því að það gætu þá aðrir flokkar kannski risið upp og þótzt þurfa að velja mann í n. líka. En ég er sem sagt fús til að ráðfæra mig við hv. 6. þm. Reykv. um þetta.