08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

27. mál, fjárlög 1944

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég á hér nokkrar brtt., sem ég vildi mæla fyrir. Það er þá fyrst brtt. 517, 27 um handíðaskólann. Till. þessi, sem ég flyt ásamt þrem öðrum hv. þm., er um það, að handíðaskólanum verði á næsta ári greidd full verðlagsuppbót á grunnstyrk til skólans. Um þessa till. er það að segja, að það var samþ. við afgreiðslu síðustu fjárl., að grunnstyrkurinn til skólans skyldi vera 2600 kr., og ríkisstj. hefur framkvæmt þetta svo, að hún hefur greitt fulla verðlagsuppbót á þennan styrk, og skólanefnd skólans gengur út frá því, að hún fái jafnháan styrk á næsta ári og hefur miðað skólareksturinn við það. Það kæmi vitanlega skólanum illa, ef hann yrði sviptur meiri hl. af þeim styrk, sem hann hefur fengið, með því að fella niður verðlagsuppbótina á grunnstyrkinn. Það fór svo, að meiri hl. fjvn. vildi ekki taka þetta upp sem sína till., þrátt fyrir það, þó að það kæmi fram í n., að meiri hl. mundi geta fallizt á efni till. út af fyrir sig. Handíðaskólinn er ungur skóli, en vinnur þýðingarmikið verk. Nú eru í skólanum 330 nemendur, og styrkurinn, sem skólanum er ætlaður, er ekki svo hár, að ástæða sé til þess að fara að lækka hann, á sama tíma og styrkir til annarra skóla eru látnir halda sér, frá því, sem var í fyrra. Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. sjái sér fært að verða með þessari till. og slái því föstu, að þessi skóli skuli fá samsvarandi fjárstyrk til rekstrar á næsta ári og hann hefur fengið á þessu ári.

Þá á ég brtt. á þskj. 546,4. Sú till. er um, að veittar verði til brúargerðar á Jökulsá á Fjöllum hjá Grímsstöðum 250 þús. kr. Þessi brú mundi verða mikið mannvirki, og reiknað með núverandi verðlagi er áætlað, að hún mundi kosta um l millj. kr. En þessi brú mundi vera mjög þýðingarmikil, hún mundi stytta samgönguleiðina milli Austur- og Norðurlands um 90 km., og mundi því gerbreyta samgöngum til Austurlands við aðra landshluta. Það er gert ráð fyrir því, að þessi brú verði byggð fyrir fé það, sem safnazt hefur í brúarsjóð samkvæmt sérstökum 1. En það gengur hægt að safna í þann sjóð; nú um áramótin munu verða í honum um 700 þús. kr., og vantar því enn þá um 300 þús. kr. til þess, að nægilegt fé sé fyrir hendi til þess að leggja í þessa brúarbyggingu. Ég álít, að hér sé um svo þýðingarmikið atriði að ræða, að það sé ekki nema rétt og sjálfsagt að leggja fram aukafé til viðbótar því, sem er í brúasjóði, til þess að hægt sé að hefjast handa um byggingu á þessari brú sem allra fyrst. Það er vitað, að aðrar stórbrýr bíða eftir því, að lagt sé fram fé til þeirra. Hér eru komnar fram till. um fjárframlög til þeirra brúa, en þeim yrði um leið þokað áfram með því að samþ. fjárframlag til þessarar brúar, vegna þess, að þá kæmu þær brýr fyrr til með að fá fjárframlög úr brúasjóði, í stað þess, að annars mundi Jökulsárbrúin halda áfram að ganga fyrir um það fé, sem annars rynni í brúasjóð. Ég vil vænta þess, að hv. þm. samþ. þessa till., þegar þeir athuga nánar, hvað hér er um mikilvæga framkvæmd að ræða:

Þá á ég brtt. á þskj. 599,4, sem er um það, að veittar verði 100 þús. kr. til brúargerðar á Hofsá í Álftafirði, en hún sker í sundur þann veg, sem tekizt hefur að leggja á milli Hornafjarðar og Djúpavogs. Brú á Hofsá yrði nokkuð dýr, um 200 þús. kr., en ég hef í minni till. lagt til, að til þessarar brúargerðar yrðu lagðar fram 100 þús. kr., og er það í samræmi við það, sem tekið er til annarra brúargerða, því að einhvern tíma verður að byrja á því að leggja fram fé til þess að brúa þær ár, sem beinlínis klippa í sundur samgönguæðar, eins og þessi. Ef þessi brú kæmist upp, væri bílfært frá Djúpavogi til Hornafjarðar.

Þá á ég brtt. á þskj. 605,. 8, till., sem ég flyt ásamt hv. þm. Ísaf., um það að heimila ríkisstj. að selja varðskipið „Þór“, en þó því aðeins, að annað hentugra skip til landhelgisgæzlu verði keypt í staðinn. Það er kunnugt, að varðskipið „Þór“ er óhentugt í rekstri, og hefur verið mikið tap á rekstri skipsins. Það hefur komið til tals að selja skipið, og fjvn. hefur nokkrum sinnum rætt um það mál, en hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Við, sem stöndum að þessari till., álítum, að þó að „Þór“ sé ófullkomið skip, þá sé ekki á nokkurn hátt verjandi að selja þetta skip, meðan ekki hefur fengizt annað hentugra í staðinn. Það er kunnugt, að ríkið verður nú að leigja, með óhagstæðum kjörum, skip til flutninga innanlands, og gæzlu jafnvel líka. Það er því alls ekki verjandi, að á sama tíma og ríkið verður að leigja skip með óhagstæðum kjörum, fari það að selja eitt af sínum skipum, þó að það sé ekki hagstætt í rekstri. Hins vegar er vert að athuga að selja skipið, ef hægt er að fá annað hentugra í staðinn.

Þá á ég einnig brtt. á þskj. 599,6. Hún miðar að því að auka stórum fjárframlag til byggingar húsmæðraskóla í sveitum, og þá alveg sérstaklega með tilliti til Hallormsstaðarskólans og skóla Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði. Það hagar þannig til með Hallormsstaðarskólann, að það er brýn þörf á því að koma upp viðbótarbyggingu við hann. Skólastjórinn hefur barizt fyrir því undanfarin ár að reyna að koma byggingu þessari af stað, en það hefur staðið á því að fá fjárframlag frá ríkinu til byggingarinnar. Skólann vantar alveg tilfinnanlega leikfimissal og aðstöðu til þess að geta kennt matreiðslu og hannyrðir, auk þess má benda á það, að á Hallormsstað er einhver vinsælasti sumardvalarstaður almennings, a. m. k. á Austurlandi, og þangað koma á hverju ári mjög margir menn, en húsakostur skólans er ófullnægjandi til þess að mæta þeim fólksstraum, sem þangað streymir nú, því að þátttaka manna í sumarferðalögum eykst sífellt, og af þeim ástæðum er einnig nauðsynlegt að geta aukið við húsnæðið. En til þess að skólinn geti hafizt handa um þá byggingu, sem gert hefur verið ráð fyrir, þarf að hækka mjög mikið frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir, framlag ríkisins til byggingar húsmæðraskóla í sveitum. Ég hef því lagt til, að þessi fjárveiting yrði hækkuð um 120 þús. kr., og mundi hækkunin koma niður á alla þá skóla, sem til mála geta komið, en mest á Hallormsstaðarskóla.

Auk þessarar brtt., sem ég hef nú lýst, er ég meðflm. að þrem öðrum till., sem eru í prentun, en með leyfi hæstv. forseta vildi ég mega skýra nokkuð frá þeim. Ein þeirra till. er um það að bæta nýjum lið við 22. gr., þar sem ríkisstj. væri heimilað að verja allt að 10 þús. kr. til þess að styrkja útgáfu kennslubókar í raffræði. Ástæðan til þessarar till. er sú, að félag íslenzkra rafvirkja hefur snúið sér til ríkisstj. og óskað eftir framlagi frá ríkinu til þess að hægt væri að koma út þessari kennslubók. Stj. tók vel í málið, en hefur ekki heimild til þess að verja fé í þessu skyni, og var því erindi rafvirkjafélagsins sent til fjvn. Fjvn. aflaði sér upplýsinga hjá rafmagnseftirliti ríkisins um þörf slíkrar kennslubókar og kostnað við útgáfu á henni, og samkvæmt áliti rafmagnseftirlitsins er mikil þörf á að fá slíka kennslubók, en heildarkostnaður við útgáfuna mun nema 50 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir sæmilegri sölu á bókinni, en að áliti eftirlitsins mundi alltaf verða um 10 þús. kr. halli við útgáfu þessarar bókar. Það fékkst ekki meiri hl. fyrir því í fjvn. að taka upp neina fjárveitingu í þessu skyni, en ég er á þeirri skoðun, að hér sé um mikla nauðsyn að ræða, sem sjálfsagt sé að styðja, að nái fram að ganga. En í till. minni er heimild stj. bundin við það, að samning og útgáfa bókarinnar yrði háð eftirliti og stjórn rafmagnseftirlits ríkisins.

Þá er önnur af þeim brtt., sem ég er meðflm. að og er ekki komin úr prentun, en brtt. er við brtt., sem er á þskj. 604, 4, en það er till. meiri hl. fjvn. um dýrtíðarráðstafanir eða öllu heldur 10 millj. kr. framlag til verðuppbóta til bænda. Sú brtt., sem ég flyt, ásamt meðflm. mínum, er um það, að þessar uppbætur verði lækkaðar úr 10 millj. í 6 millj., og svo eru skilyrðin um greiðslu á þessu fé nokkuð önnur en í ákvæðinu, sem fylgir till. meiri hl. fjvn. Við leggjum til, að þessi verðuppbót verði greidd á útfluttar landbúnaðarafurðir, og þá fyrst og fremst til þeirra aðila, sem hafa framleiðslu undir því, sem meðalbú hafa, en að ekki verði farið inn á þá braut að greiða millj. kr. úr ríkissjóði í uppbætur til bænda, sem hafa tekjur yfir meðalbú. Auk þess gerum við ráð fyrir því, að sett verði sérstök l. um það, hvernig úthluta skuli þessum verðuppbótum. Ef reglur þær, sem við höfum sett í okkar till., yrðu viðhafðar við úthlutun þessa fjár, þá er það öllum ljóst, að upphæðin mundi lækka allverulega, því að það er ekki svo lítill hluti framleiðslunnar, sem kemur niður á þá bændur, sem hafa yfir meðalbúsframleiðslu, og það er af þeim ástæðum, að við höfum lækkað upphæðina úr 10 millj. niður í 6 millj. kr.

Þá er þriðja till., sem ég flyt ásamt samflokksmanni mínum og ekki er heldur komin úr prentun. Sú till. er um það að verja allt að 4 millj. kr. til launauppbótar handa smáútvegsmönnum og hlutarsjómönnum eftir nánari reglum, sem Alþ. setti um greiðslu þess fjár til þeirra smáútvegsmanna og hlutarsjómanna, sem sérstaklega hafa orðið illa úti og segja má, að standi mjög svipað á fyrir og þeim bændum, sem nauðsyn þykir að styrkja úr ríkissjóði. Samkvæmt þessum tveim till. leggjum við því til, að varið verði úr ríkissjóði sömu upphæð eins og meiri hl. fjvn. leggur til í sinni till., eða 10 millj. kr. En í staðinn fyrir það, að meiri hl. leggur til að verja um 4 millj. til handa bænda, sem hafa yfir meðalbú, leggjum við til, að þessar 4 millj. gangi til þeirra fiskimanna, sem hafa verið óeðlilega lágt launaðir, miðað við aðrar vinnandi stéttir og því fé verði úthlutað, eftir nánar settum reglum, af Alþ. Jafnframt þessari till. mun ég ásamt einum samflokksmanni mínum leggja fram þáltill. um, að skipuð verði þriggja manna n., sem athugaði nánar hag og afkomu smáútvegsmanna og hlutarráðinna fiskimanna og gerði till. um það, hvernig bezt yrði fyrir komið stuðningi ríkisins við þá, og eins, hvernig megi tryggja þeim sanngjörn lágmarkslaun til frambúðar. Það er vitanlegt, að hlutarsjómenn hafa þegar gert samninga um það að beita sér fyrir því að fá lágmarkskauptryggingu fyrir sinn hlut. Fyrir skömmu var haldin ráðstefna sjómanna í Reykjavík, og gerði hún samþykkt í þá átt. Allmikill hluti af útgerðinni í landinu getur af eigin rammleik staðið undir lágmarkskauptryggingu til sinna hlutarmanna, en hins vegar er það vitað, að nokkur hluti útgerðarinnar, sérstaklega smærri útgerð, er ófær um í ýmsum tilfellum að mæta þessari lágmarkskauptryggingu, sem þó er sanngjörn frá hlutarmanna hálfu. Við höfum hins vegar bent á þá möguleika, að komið yrði upp sérstakri tryggingarstofnun, þar sem reynt yrði að mæta þeim skakkaföllum, sem kæmu fram hjá þeim smáútvegsmönnum, sem þyrftu að grípa til þess að greiða aukalaun, til þess að fylla upp í lágmarkskauptrygginguna. Það væri því eðlilegt, að þessi tryggingarstarfsemi væri fyrst og fremst kostuð af útgerðinni og ríkinu. Það er nauðsynlegt og sjálfsagt að tryggja þeim, sem vinna við smábátaútgerðina, lágmarkslaun. En ég mun gera nánari grein fyrir þeirri till., er hún verður flutt sem þáltill. Ég vona, að hv. þingmenn sjái, að um leið og þeir greiða bændum verðlagsuppbætur, sé og sanngjarnt að greiða hlutarsjómönnum, sem búa við enn lélegri kjör en bændur, nokkrar uppbætur, og vænti ég, að þm. sjái sér fært að samþykkja till. um þetta atriði.