10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

152. mál, alþýðutryggingar

Hermann Jónasson:

Ég mun nú ekki halda hér neina ræðu um þetta mál, heldur aðeins lýsa yfir því, að við framsóknarmenn erum því fylgjandi, að þessi löggjöf sé endurbætt. Og við þurfum því síður en aðrir að tala mjög um þetta mál, þar sem við höfum stutt það í verki, og eigum þar okkar sögu að nokkru leyti. En það er vitanlega margt í þessu máli, sem orkar tvímælis, eins og margt í þessum tryggingum öllum, því að þótt þær séu nokkuð gamlar meðal þjóðarinnar, þá eru þær þó ekki eldri en það, að ýmislegt hefur komið í ljós, sem mjög orkar tvímælis. Það er óráðið, hvort ég kynni að koma með einhverjar brtt. við frv. við 3. umr.

Viðvíkjandi fulltrúa Sjálfstfl. og Framsfl. í þessari n., sem hefur undirbúið málið, vildi ég segja það, og eiginlega þess vegna stend ég upp, að það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að fulltrúi Framsfl. eða framsóknarmaðurinn í n. var tilnefndur síðar en aðalnefndin. En það var ekki gert eftir ósk frá Framsfl. til ráðuneytisins. Það er rétt hjá honum, að óánægja var í Framsfl. yfir að eiga engan fulltrúa í þessari n. Aðspurður mun félmrh. hafa tekið fram, að hann vildi ekki tilnefna menn af hálfu flokka í n. Hins vegar valdi hann Jens Hólmgeirsson í n., meðfram með tilliti til þess, að hann tilheyrði Framsfl., en aðallega vegna annarra þeirra kosta, sem sá maður hafði að bera til nefndarstarfanna, þar sem hann var búinn að vera atorkusamur bæjarstjóri mörg ár á Ísafirði og hinn starfhæfasti maður. Þessi nm. hefur ekki heldur skilið tilnefning sína svo, að hann væri fulltrúi fyrir flokk sinn, því að hann hefur aldrei komið með viðfangsefni nefndarinnar inn á flokks- eða miðstjórnarfundi. Það var fyrst eftir að málið hafði verið lagt fram á Alþ., að ég átti tal um það við Jens Hólmgeirsson og athugaði nokkur atriði í frv. Það er í aðalatriðum rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. segir, nm. voru ekki í n. sem flokkafulltrúar, en raunar áttu allir flokkar nema Framsfl. þar pólitíska fulltrúa sína.