23.09.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors:

Herra forseti. Fyrirspurnin, sem ég ætla að bera fram, mun einkum varða starfssvið hæstv. fjmrh., og mér hefði því þótt eðlilegt, að hæstv. forseti hefði frestað því, að fyrirspurnin kæmi fram, þar til hæstv. fjmrh. væri viðstaddur. Nú hefur hæstv. forseta borizt vitneskja um, að hann kemur ekki á fundinn, og vil ég þá beina fyrirspurninni til hæstv. forsrh. En fyrirspurnin er um það, hvar hæstv. ríkisstj. sé á vegi stödd um öflun heimilda til að greiða niður verðvísitöluna. Að svo miklu leyti sem málið liggur upplýst fyrir almenningi, hefur hæstv. ríkisstj. talið sér skylt að leita samþykkis þingflokkanna til að greiða niður dýrtíðina eða halda vísitölunni niðri. Hæstv. ríkisstj. skrifaði öllum þingflokkunum og spurðist fyrir um það sérstaklega, hvort þeir væru samþykkir því, að hún notaði ákveðnar tekjur ríkissjóðs í þessu skyni. En það skiptir ekki máli, hvort það er þetta fé eða annað, sem notað er. Aðalatriðið er, hvort það orkar tvímælis, að heimildin í 4. gr. dýrtíðarl. frá í fyrra sé eingöngu takmörkuð við fé, sem ríkissjóði fellur til samkv. 2. gr. þeirra l., en það er álit Sjálfstfl., að það nái ekki nokkurri átt að sú heimild sé notuð takmarkalaust, meðan hæstv. Alþ. situr og hægt er að ná til þess um samþykki.

Málinu virðist svo komið, að fyrirspurnum hæstv. ríkisstj. hafi af tveim flokkum þingsins (Alþfl. og Sósfl.) verið svarað neitandi. Sjálfstfl. svaraði, að hann vildi um sinn sætta sig við, að fé yrði lagt fram, að því tilskildu, að hæstv. ríkisstj. aflaði sér tafarlaust heimilda til þess á Alþ. Síðan þetta skilyrði var sett, eru nú liðnir 8 eða 9 dagar, og er eðlilegast, að hæstv. ríkisstj. geri Alþ. grein fyrir því, hvað hún hyggst fyrir í þessum efnum.