08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

27. mál, fjárlög 1944

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta eru aðeins örfá orð. Ég vildi fyrst og fremst þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefur að langmestu leyti tekið upp till. þær, sem ég og hv. 1. þm. Eyf. höfðum lagt fyrir hana. Það eru þó hérna á þskj. 517 tvær till., þar sem við förum fram á hækkun.

Í fjárlfrv. eru ætlaðar 10 þús. kr. til Hrísavegar, en við förum fram á, að það verði 15 þús. kr. Þessi vegur hefur orðið út undan, þannig að hann er raunverulega ónothæfur, og ég hygg, að vegamálastjóri muni hyggja gott til þess, að lagt sé á fjárl. til þessa vegar það, sem hér er farið fram á, svo að ég vona, að þessi hækkunartill. verði samþykkt.

Þá höfum við, hv. 1. þm. Eyf. og ég, farið fram á 25000 kr. til bryggjugerðar í Rauðuvík við Eyjafjörð. Það hefur verið veitt, bæði í fyrra og nú í ár, fé til bryggjugerðar á Litla Árskógssandi: í fyrra 15 þús. kr. og nú 25 þús. kr. og á öðrum stað 25 þús. kr. Það er að vísu svo, að það er fjölmennara á þessum stöðum en við Rauðuvík, en við Rauðuvík er ákaflega gott bryggjustæði, alveg í skjóli, og mundi bryggja þar auka útgerð ákaflega mikið, svo ég vænti að þingið geti fallist á þessa fjárveitingu.

Á þskj. 605, 5. till., er b-liðurinn til samræmis við það, sem farið hefur verið fram á, en a-liðurinn er um að heimila allt að 10000 kr. til þess að athuga, hvernig hægt er að bæta úr vatnsskorti í Grímsey og til dælukaupa í þeim tilgangi. Það liggur fyrir hjá fjvn. álit Pálma Einarssonar um það, að það muni kosta a. m. k. 30–35 þús. kr. að koma þessari vatnsveitu á, setja upp dælurnar og leiða það niður í þorpið. Þarna hagar þannig, að þegar þurrkar ganga, geta Grímseyingar ekki fengið vatn, nema að sækja það sjóleiðina alllangan veg, 15 mínútna ferð á mótorbát eða fara 20 mín. gang. Síðan er farið upp í bergið tugi metra til þess að ná í vatnið, því að eftir því, sem upplýst er, er það aðeins á þessum eina stað, sem Grímseyingar geta fengið vatn, þegar þurrkar ganga. Aðrir staðir, sem vatnið er tekið úr, tjarnir, eru óhreinir og geta valdið smitun og sjúkdómum, og vitanlega er ekki um aðra leið að ræða fyrir Grímseyinga en að sækja vatnið niður í bjargið. Nú er það hins vegar, að þegar brim er, er ekki hægt að komast að vatninu, og verður því að síga niður. Ég vildi nú óska þess, að form. fjvn. vildi gefa loforð um það eða yfirlýsingu, að sama upphæð, sem hér er lagt til að verði veitt, verði veitt á næstu 2–3–4 árum, eftir því, sem þyrfti, því að væri slík yfirlýsing fyrir hendi, væri hægt að útvega Grímseyingum það lán, sem þeir þyrftu til þess að geta byrjað á þessu og komið vatnsveitunni á. Menn úr Grímsey hafa staðið í bréfaviðskiptum við mig um, hvort ég gæti útvegað fjármagn til þess að koma þessu á stað, og að sjálfsögðu geri ég það, ef þessi yfirlýsing kemur frá fjvn. Það má segja, að það sé einsdæmi, að fé sé veitt til vatnsveitu, en samt hefur verið veittur styrkur til þess að leita eftir vatni eins og í Vestmannaeyjum. Það er ekki fullreynt, hvort vatn er víðar í björgunum í Grímsey, sem hægt er að ná með góðu móti, en víst er, að þarna er drykkjarvatn, sem er svo og svo marga metra fyrir neðan bjargbrún og ekki er hægt að ná, nema að klífa eða síga.

Grímsey er svo afskekkt, að hún hefur engan lækni, enga yfirsetukonu og engan prest, og mætti ekki minna vera en að eyjarskeggjum væri hjálpað til þess að fá ferskt vatn til drykkjar, svo að þeir þyrftu síður á lækni að halda. Það hefur verið ætlazt til þess, að presturinn í Grímsey hefði nokkra lækniskunnáttu, og var eyjan veitt manni, sem hafði lært eitthvað til læknisstarfa, en hann hefur aldrei komið þangað. Í Grímsey er læknislaust, prestslaust og yfirsetukonulaust, og það er ekki langt síðan kona fórst þar úr barnsnauð, svo það er vitanlegt, að þegar svona stendur á, er það skylda Alþingis að veita þessa hjálp. Það vildi svo til fyrir skömmu, að það þurfti að sækja lækni, sem ekki fékkst frá Húsavík, svo það varð að sækja hann til Siglufjarðar, og tók það 7 tíma hvora leið í vonzkuveðri, þannig að ferðin tók 14 tíma þangað til komið var með lækninn, svo að það er ekki ástæðulaust, að Alþingi veiti þessum hreppi, sem telur 140 manns, það fé, sem hann þarf til þess að koma á hjá sér vatnsveitu. Það er annað, sem ég vildi benda á og ætti að vekja menn til umhugsunar um, hve Grímseyingar eru afskiptir. Útgerðarmenn landsins — og Grímseyingar lifa á útgerð að öllu leyti — hafa möguleika á að koma afurðum sínum í frystihús. Í Grímsey er það þannig, að þar er ekkert frystihús, og þeir geta ekki geymt beitu sína á vetrum, en verða að beita fugli. Þeir hafa hug á að koma upp frystihúsi. og er í undirbúningi að hjálpa þeim með það. Ég bendi bara á þetta, en það, sem ég fer sérstaklega fram á við form. fjvn., er það, hvort hann muni ekki treysta sér til að gefa yfirlýsingu um, að Alþingi muni hlaupa undir bagga næstu 2–3 árin, eftir því sem með þyrfti til þess að gera það mögulegt að koma vatnsveitunni á nú eða á næsta ári.