24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að bera þá fyrirspurn fram til hæstv. utanrrh., hvort hann sæi sér ekki fært að beita sér fyrir því, að yfirfærslu á andvirði ísfiskjar, sem seldur er nú í Stóra-Bretlandi, yrði hraðað meira en nú er gert. Síðan 25. júní mun engin yfirfærsla hafa átt sér stað hjá þeim, sem flytja eða selja fisk til Englands, og er nú komið svo, að mörg skip munu eiga inni um l millj. kr. með þeim stóru gjöldum, sem inna þarf af hendi hér á landi, og er þetta tilfinnanlegt fyrir útgerðina, og á hún ekki annars kost en að leita á náðir bankanna til þess að geta haldið áfram atvinnurekstri sínum. Mér er sagt, að þetta stafi af því, að breyting hafi orðið á láns- og leigusamningnum við Bandaríkin. Ég vildi mega vænta þess, að hæstv. utanrrh. sæi sér fært að beita sér fyrir því við viðkomandi aðila, að þessum málum verði kippt í lag hið fyrsta.