08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

27. mál, fjárlög 1944

Jónas Jónsson:

Ég ætla fyrst að minnast á till., sem flutt er hér af einum þm. Reykv. Það væri líklegt, að ég sem Þingvallanefndarmaður væri með því, að í staðinn fyrir brúargerð á Þingvöllum yrðu framkvæmdar stærri aðgerðir, nefnilega tekinn vegurinn úr Almannagjá og hann lagður utan við Valhöll. Við í Þingvallarn. höfum við hlið okkar tvo ráðunauta, vegamálastjóra og húsameistara ríkisins. Húsameistari hefur verið á móti þessari ráðabreytni, en hinn ráðunauturinn hefur verið með henni. Þetta hefur orðið til þess, að við höfum ekki treyst okkur til að fara fram á fjárframlag til þessa, en það er freisting fyrir okkur að vera með öllu, sem prýðir Þingvelli. En það er svo, að ef það dregst að gera við veginn, getur það orðið hættulegt, því að það hefur hvað eftir annað legið við borð, að stórkostleg slys yrðu við ána, einkum á vetrum, svo að við sáum okkur ekki annað fært en reyna að fyrirbyggja, að slys verði þarna. Það er ekkert um það að segja, þótt Alþingi kunni að snúa sér að því að leggja veginn, það er ekki svo mikill skaði skeður, þótt brúin sé þrátt fyrir það yfir ána, en það kann að verða hættulegt að hafa þetta svona um langan tíma.

Ég hef flutt hér tvær till. varðandi Björn Guðfinnsson lektor, en tek aðra aftur. Ég fór fyrst fram á ákveðna fjárhæð til þess að hann gæti leitað sér lækninga í Ameríku, en komst svo að þeirri niðurstöðu, að það væri of lítið fyrir fátækan mann, ef hann ætti að leggja í þetta á annað borð, og hef breytt þessu þannig, að háskólastjórnin hafi leyfi til að borga honum allt að fullum árslaunum háskólakennara til þessarar ferðar. Það gæti farið svo, að ferðin kostaði um 40 þús. kr., svo að ef það á að fara inn á að veita honum styrk, þarf hann að vera mikill eða þá ekki neitt. Ég vil taka það fram um veikindi þessa manns, að hann hefur verið skorinn upp 5 sinnum hér og erlendis, en þetta er þýðingarmikill maður, með því að hann virðist vera allra duglegasti og bezti íslenzkukennari, sem fram hefur komið hér, og þó að hann sé ungur, er farið að bera á áhrifum hans í Menntaskólanum og einnig í Háskólanum, þar sem hann hefur aðeins kennt stutta stund. Annars held ég, að þm. sé kunnugt um störf þessa manns, og ætla ekki að fjölyrða um það.

Þá hef ég flutt till. um n. til þess að skipta styrkjum milli skálda og listamanna, aðaltill. og varatill. Það er öllum kunnugt, að Alþingi hafði fyrst sjálft skipti á þessu fé, en fól það svo Menntamálaráði. Þar var það um stund, en svo urðu samtök milli margra af þessum mönnum um að hafa styrkveitingarnar ekki þar, og voru þær afhentar bandalagi þessara manna, en þá tók ekki betra við, því að það tókst ekki að fá styrkveitinguna framkvæmda fyrr en komið var langt fram á árið, og eins og menn vita, var mikil óánægja með þessi skipti, og jafnvel einn mesti maður þessa bandalags gekk úr því. Þar að auki voru þeir annmarkar á þessu, að sumir þeirra manna, sem mests trausts njóta hjá þjóðinni í þessu efni, lækka, og vil ég í því efni nefna menn eins og Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Jóhannes Kjarval, Ríkarð Jónsson og Sigurð Jónsson, skáld á Arnarvatni. Ég hef flutt till. um, að þessum mönnum verði bætt upp það tap, sem þeir urðu fyrir, borið saman við það, sem þeir hefðu annars haft. Ég býst ekki við, að Alþingi æski þess, að menn, sem hafa notið mesta trausts bæði hjá því og öðrum mönnum í landinu, lækki, til þess að aðrir óþekktari menn, sem þjóðin hefur minni mætur á, taki þeirra peninga. Ég flutti við 2. umr. fjárl. till. um, að Alþingi tæki aftur við útbýtingu fjárins til skálda og listamanna, en þingið vildi það ekki. Meðan svo stendur, að Alþingi hefur lýst yfir, að það vilji ekki hafa með þessi skipti að gera, bandalagið lýst yfir, að það vilji ekki hafa þau hjá Menntamálaráði og það kom í ljós árið sem leið, að aldrei hefur verið meira ranglæti en þá, er ekki sýnilegt annað en að þeir flokkar, sem telja sína menn afskipta, verði að fá sérstaka fjárveitingu, ef þetta á ekki að líta út sem flokkssjóður. Mér þótti þess vegna rétt, ef Alþingi vildi ekki láta þetta líta út sem flokkssjóð eins flokks, að setja n., og get ég búizt við, að ég taki aðaltill. til baka, því að á þessu stigi er líklegt, að Alþingi vilji heldur kjósa mennina en hafa þá stjórnskipaða. Það kemur í ljós á sínum tíma, en á hinn bóginn er ljóst, að einhverja breyt. þarf að gera, og að því miða till. mínar, sem nú liggja fyrir Sþ.

Þá hef ég flutt till. um það, að ríkisstj. fái heimild til að greiða allt að 75 þús. kr. á árinu 1944 til þess að létta undir með þeim sveitar- og bæjarfélögum, sem greiða vilja upp lán sín við kreppulánasjóð. Það munu vera um 70 sveitar- og bæjarfélög, sem eru að leitast við að borga þetta. Sum eru búin að fullu, en önnur eru eftir. Bankastjórnin hefur ekki séð sér fært að gera þetta, nema ríkissjóður legði féð fram. Það hefur verið tekin til lág fjárupphæð, sem nægir þó til þess, að allmörg sveitarfélög og kauptún mundu geta rutt af sér þessum skuldum og búið sig undir örugga framtíð. Ég vonast til, að þessi till. þyki sanngjörn.

Þá er ein till., sem ég stend að, varðandi íþróttaskólann í Haukadal. Eins og menn vita, stjórnar Sigurður Greipsson þeim skóla. Hann hefur á síðustu árum haft um 20 nemendur, en hefur haft lágan styrk og enga dýrtíðaruppbót fengið. Þetta mun vera fyrir eins konar gleymsku hjá þinginu, og legg ég til, að hann fái greidda dýrtíðaruppbót fyrir þetta ár og árið 1944, eins og aðrir skólar.

Að síðustu hef ég flutt till. ásamt hv. 1. þm. Eyf. viðvíkjandi leiðum tveggja skálda. Till. mín gengur út á það, að stj. hafi leyfi til að láta veita sama umbúnað leiði Bjarna Thorarensens á Möðruvöllum eins og veittur hefur verið leiði Einars Benediktssonar á Þingvöllum. Þ. e. a. s., að á leiði Bjarna Thorarensens verði sett málmtafla og nafn hans grafið á. Leiði hans er ekki alveg gleymt, en það er hálfgleymt í Möðruvallakirkjugarði, og hygg ég, að ef því væri veittur svona umbúnaður, mundi það vekja miklu meiri eftirtekt og minna menn á, hvar skáldið starfaði og dó, og er varla minna sæmandi minningu þessa fyrsta stórskálds 19. aldarinnar en þetta. Ég hygg, að þessari venju ætti að halda áfram. Á ríkisstjórasetrinu, Bessastöðum, er annað stórskáld, Grímur Thomsen, með fátæklegan umbúnað í gröfinni, og ég efa ekki, að menn vilji innan tíðar bæta um umbúnað fleiri skálda og varðveita leiði þeirra frá því að falla í gleymsku.