08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Mig langar til þess að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún telji þær ráðstafanir, sem hún hefur gert til þess að greiða uppbætur á kjötframleiðslu, eiga að ná til þess kjöts, sem notað er til heimilisþarfa hjá framleiðendum. Eins og kunnugt er, hefur ríkisstj. ákveðið að greiða allt að 2 kr. á hvert kg til uppbótar á verð þess kjöts, sem selt er til neyzlu hér innanlands. Þetta er svipuð regla og sú, sem hæstv. stj. tók upp á s. 1. vetri að því er smjör snertir. Ég minnist þess, að í sambandi við eftirlit með uppbótargreiðslum vegna smjörs gaf ríkisstj. út reglur, sem áttu að tryggja það, að bændur gætu ekki fengið uppbætur á smjör, sem þeir sjálfir notuðu til heimilisþarfa, eins og rétt var og eðlilegt. Ég er ekki þess umkominn að segja til um það, hvort þessar reglur um smjör hafi komið að því gagni, sem til var ætlazt. Mér er hins vegar ekki kunnugt um, að hæstv. stj. hafi gefið út neinar hliðstæðar reglur til tryggingar því, að uppbætur, greiddar á kjöt, yrðu ekki misnotaðar. Mér virðist liggja í augum uppi, að ef kjötframleiðendur vilja, þá geti þeir tekið það kjöt, sem þeir nota til heimilisþarfa, og lagt það inn í sláturhús og látið svo annan mann taka út kjötið aftur og á þann hátt fengið borgaðar uppbætur á það kjöt. Það orkar ekki tvímælis, að slíkt var ekki tilgangur ríkisstj., en það verður að telja sjálfsagt, að settar séu reglur um, að slíkt geti ekki komið fyrir. — Ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér viðstaddur, og vona, að hann geti gefið upplýsingar um þetta atriði.