08.10.1943
Neðri deild: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hefði kvatt mér hljóðs þegar í byrjun þessa fundar til þess að bera fram fyrirspurnir til hæstv. ríkisstj., en vegna þess að hæstv. viðskmrh. var bundinn við umr. í Ed., þá dró ég mig til baka. Nú er hæstv. ráðh. enn bundinn við þessar umr., en ég læt það þó ekki aftra mér, þar sem ég veit, að allri hæstv. ríkisstjórn er kunnugt um þetta mál, sem ég ætla að spyrja um, en það er olíusölumálið.

Fyrir 8 dögum eða svo var tilkynnt allveruleg verðlækkun á olíu. Daginn eftir birtist svo í Morgunblaðinu undarleg grein um olíusölumálið, þar sem forstjórar olíufélaganna skýra afstöðu sína í þessu máli. Strax daginn eftir að þessi grein birtist, eða 4. okt., tilkynnti hæstv. viðskmrh., að hann teldi sig þurfa að gefa yfirlýsingu af hálfu ríkisstj. um þetta mál og, að því er mér skildist, helzt varðandi greinina í Mbl. Nú hefur enn þá engin slík yfirlýsing komið fram, en þar sem hér er um þýðingarmikið mál að ræða og þetta er nú búið að bíða í heila viku, þá vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvað þessari yfirlýsingu líði.

Í greininni í Mbl. segja forstjórar olíufélaganna, að þeir hafi strax í sumar viljað lækka olíuverðið, en síðan líða 3 mánuðir án þess að lækkunin verði gerð. Þeir láta skína í það, að þeir hafi boðizt til þess að lækka olíuverðið um það mikið, að það mundi muna útveginn um 2 millj. kr. á ári. Að vísu kemur það fram, að olíufélögin hafi sett einhver skilyrði, sem ríkisstj. hafi ekki viljað ganga að, og skín í gegn, að þeir hafi farið fram á, að þeim yrði tryggð sama sala og undanfarin ár.

Nú er það kunnugt, að ýmsar útgerðarstöðvar úti um land hafa óskað eftir því að fá að kaupa olíuna beint, án milligöngu olíufélaganna, eins og Síldarverksmiðjurnar á Siglufirði gerðu í sumar og gátu þannig selt veiðiskipunum miklu ódýrari olíu en olíufélögin gerðu. Þessir staðir telja sig einnig geta fengið mun ódýrari olíu, ef þeir fá að kaupa hana beint. Nú bíða þeir enn eftir svari, og þegar það hefur einnig dregizt svo með áðurnefnda yfirlýsingu, þá er full ástæða til þess að spyrja: Hvað hindrar það, að þessir staðir fái að kaupa olíuna beint?

Ég vildi einnig spyrja að því í sambandi við þessa Mbl. grein, hvort það sé rétt, að nú standi fyrir dyrum stórfelld hækkun á innkaupsverði olíunnar. Ég held, að þessi olíumál séu svo stórvægileg, að það sé ekki verjandi, að dregið sé mánuð eftir mánuð að gera nokkuð í þeim, þar sem nú virðast liggja fyrir heimildir um, að hægt sé að lækka olíuna allverulega.

Ég vil svo vænta þess, að svar berist bráðlega við þessum fyrirspurnum og hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að leysa þessi mál hið bráðasta.