13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Að gefnu tilefni þykir rétt og nauðsynlegt að upplýsa, að öll ámæli á setuliðsstjórnina, sem kunna að hafa komið fram í blöðum og annars staðar út af kaupum hennar á mjólk, eru með öllu ástæðulaus.

Setuliðsstjórnin hefur hvað eftir annað formlega yfirlýst, að hún óskaði ekki eftir að kaupa hér á landi mjólk né aðrar matvörur, nema aðeins í þeim tilfellum, sem matvörur þessar væru til umfram það, sem landsmenn sjálfir gætu eða vildu nota.

Setuliðsstjórnin hefur hins vegar oftar en einu sinni eftir ósk aukið mjólkurkaup sín á þeim tíma árs, þegar mikill mjólkurafgangur hefur verið, en þá gengið ríkt eftir að fá að vita, að um afgangsmjólk væri að ræða.

Setuliðsstjórnin óskar ekki frekar en áður að kaupa mjólk hér á landi, nema um sé að ræða afgangsmjólk.

Af þessum ástæðum er ljóst, að með öllu er ástæðulaust að gera nokkrar samþykktir á Alþingi til þess að hefta setuliðið í kaupum þess á mjólk.

Þetta vildi ég hafa upplýst til að fyrirbyggja misskilning.