15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að upplýsa hv. þm. um eftirfarandi:

Með þingsályktunartillögu samþ. 31. ágúst 1942 samþykkti Alþingi „að fela ríkisstjórninni að greiða úr ríkissjóði verðuppbót á útflutt dilkakjöt af framleiðslu ársins 1942, eftir því sem þörf gerist til þess að útflytjendur fái sama verð fyrir það kjöt, komið í skip á útflutningshöfn, eins og heildsöluverðið er á kjöti á innanlandsmarkaði á sama tíma“.

Samkvæmt þessu hefur þann 21. ágúst s. l. verið afgreitt frá atvinnumálaráðuneytinu fyrirmæli um greiðslu þessarar uppbótar á útflutt dilkakjöt af framleiðslu ársins 1942, og nam upphæðin kr. 2.212.810,34.

Með sömu þingsályktunartillögu ályktaði Alþingi að fela stj. að greiða úr ríkissjóði „verðuppbætur á tal og gærur, sem framleiddar eru til útflutnings 1942, og miðist verðuppbæturnar við það, að framleiðendur fái ekki lægra verð hlutfallslega fyrir þessar afurðir en þeir fengu fyrir þær árið 1940, miðað við verðlagsvísitölu beggja áranna, að viðbættri uppbót, er svarar til þeirrar almennu grunnkaupshækkunar, sem orðið hefur og verða kann hjá launafólki í landinu á árinu: 1942“.

Samkvæmt þessu fyrirlagi Alþingis hefur ríkisstjórnin ákveðið verðuppbætur þessar með vísitöluhækkun 60,61% og grunnkaupshækkun 22½%.

Atvinnumálaráðuneytið tilkynnti útflytjendum í gær, að ullaruppbót gæti orðið greidd strax og fyrir lægi fullnægjandi skilríki frá þeim um magn vörunnar.

Gæruuppbótin verður greidd áður en mjög langt líður, en sem stendur er eigi nægilegur sjóður fyrir hendi í ríkissjóði til að standa straum þessarar greiðslu umfram venjuleg dagleg útgjöld.

Þar sem ráðuneytinu hefur enn eigi borizt skilríki frá útflytjendum, nægileg til þess að gera upp samtals verðuppbótina, verður eigi upplýst nákvæmlega upphæðin, en eftir því, sem næst verður komizt, má áætla ullaruppbótina 4½ millj. kr. og gæruuppbótina 8.850.000 kr.

Þetta vildi ég hafa upplýst.