18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Ég hafði hugsað mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. atvmrh. Ég sá hann í d. rétt áðan og vildi biðja hæstv. forseta að hlutast til um, að hann yrði hér viðstaddur.

Hæstv. atvmrh. gaf þær upplýsingar á þingfundi nú fyrir skömmu, að greiddar uppbætur á landbúnaðarafurðir 1942 mundu nema á 16. millj. kr. Nú er kunnugt, að þessar uppbætur verða greiddar útflytjendum afurðanna, og sennilegt er, að þær verði greiddar samkvæmt þeim skýrslum, sem útflytjendur leggja fram um, hvað þeir hafi flutt mikið út úr landinu. Mun hæstv. atvmrh. þá að sjálfsögðu geta gefið upplýsingar um, hve mikið hver útflytjandi fengi. Hins vegar veit ég ekki, hvort til muni vera nokkur skrá um, hvernig þessi upphæð mundi skiptast á býli í landinu. Vil ég því spyrjast fyrir um hjá hæstv. atvmrh., hvort hann mundi ekki, án þess að fyrir liggi um það áskorun frá Alþingi, geta lagt fyrir þm. eða n. í þinginu upplýsingar um, hvernig þessar upphæðir skiptast á hvert býli í landinu. Þegar um svo stórar fjárhæðir er að ræða, sem hæstv. atvmrh. hefur skýrt frá, virðist mér ekki ónauðsynlegt, að þm. fái upplýsingar um, hvernig upphæðirnar skiptast á býlin. Ef hæstv. ráðh. getur útvegað þessa skýrslu, án þess að þál. komi þar til, mundi ekki ástæða til að gera frekar að sinni, en ef hann telur hins vegar, að stj. sé ekki skylt að gefa þessa skýrslu, þá mundi ég athuga, hvort ekki væri rétt að flytja þáltill. um, að slík skýrsla fengist.