18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. Ísaf., að til þess er ætlazt af þingi og stjórn, að þetta fé gangi til þeirra, sem vöruna hafa framleitt, en staðnæmist ekki hjá þeim, sem flytja hana út, og að gefnu tilefni vil ég taka fram, að upphæðirnar eru greiddar útflytjendum með því ákveðna skilyrði, að þær gangi óskertar til framleiðenda. Um meðferð málsins að öðru leyti þykir mér rétt að upplýsa, að þeir útflytjendur, sem hér er um að ræða, eru langmest samvinnufélög landsins, sem er stjórnað af bændum sjálfum, og allt, sem þeim berst fyrir framleiðsluvörur þeirra, skiptist nákvæmlega og rétt milli bændanna sjálfra. Ég ætla því, að ekki þurfi neitt sérstakt eftirlit með þessum félögum af hendi hins opinbera, þar sem þau eru þannig byggð upp, að hver einstakur framleiðandi hefur fulla aðstöðu til að ganga eftir sínum rétti. Mikill minni hluti af þessum uppbótum gengur gegnum verzlanir kaupmanna, og eins og ég sagði áðan, er þeim sem öðrum sett það ákveðna skilyrði, að þetta fé gangi óskert til framleiðendanna sjálfra, og vil ég ekki að svo stöddu gera ráð fyrir, að þess gerist þörf, að heimtaðar séu af þeim kvittanir fyrir greiðslu til hvers einstaklings, heldur verði látin nægja yfirlýsing um, að farið verði eftir settum skilyrðum. En ef þingið vill ákveða annað, þá er það þess að taka ákvörðun um það.