04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég beindi þeirri fyrirspurn fyrir skömmu til stj. — og held, að það sé landbúnaðar ráðh., sem á að svara henni —, hvort borgaðar væru verðuppbætur á þá mjólk, sem seld er til setuliðsins. Enn hefur ekki, svo mér sé vitanlegt, komið svar við þeirri fyrirspurn, og þætti mér vænt um að fá það, nema þögn sé sama og samþykki.

Þá langar mig í sambandi við kjötfundinn í hrauninu við Hafnarfjörð að beina þeirri fyrirspurn til stj., eftir hvaða reglum verðuppbætur eru greiddar á kjötið, hvort þær eru greiddar til allra, sem kjötið framleiða, gegnum kaupmenn og kaupfélög, þannig að borgað sé á kjöt, sem hent er í sjóinn eða dysjað hér og hvar í hraunum landsins. Ég held, að það væri æskilegt að vita, eftir hvaða reglum uppbæturnar eða niðurfærslan á verðinu er greidd, til þess að landsmönnum yfirleitt sé ljóst, hvort það á sér stað, að ríkið borgi með kjöti, sem aldrei kemur til neyzlu manna hér á landi.

Mér þætti vænt um, ef stj. — og þá sérstaklega atvinnumálaráðherra — gæti svarað þessum fyrirspurnum.