04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir hans skýru svör viðvíkjandi mjólkinni og upplýsingarnar um það, að greiddur sé svokallaður neytendastyrkur til setuliðsins hér á landi, en mig langar út frá spurningunni um, hvernig niðurfærslan á kjötinu er greidd, að fá ofurlítið meiri upplýsingar. Hæstv. atvmrh. sagði, að ekki væri greitt af kjötinu utan til neytenda. Þýðir það, að hver kaupmaður og kaupfélag verði að gefa upp það, sem selt er út úr hverri búð? Hver á þá að kontrolera, að það sé selt, en sé ekki í búðinni eða því sé hent? Þetta virðist erfitt, en annað er erfiðara, og það er að greiða það til bænda, og hvernig á að sortera það niður, ef svo og svo miklu er hent og á að fara að gera það upp á eftir, eða leggst það algerlega á milliliðina, og er nokkurt kontrol á því, að milliliðirnir geti ekki gert sig skaðlausa á þessu?

Þetta væri gott að vita, en máske það sé kjötverðlagsnefnd, sem getur gefið upplýsingar um, hvernig farið er með kjötið.