09.09.1943
Efri deild: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1748)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég var einn af flm. þessa máls á síðasta þingi. Varð ég þá var við, að reynt var að gera mjög lítið úr málinu meðal andstæðinga þess, það talið mikið hégómamál o. s. frv. Af þeim ástæðum hef ég geymt að kynna mér, ekki eingöngu málið sjálft, heldur einnig, hvernig sá hluti landsmanna, sem ég hef umboð fyrir, lítur á málið í heild, og vil ég þá um leið svara hv. 2. þm. Árn., að ég tel það skyldu hvers þm., sem fer með umboð fyrir sveitakjördæmi, að grennslast nokkuð eftir því milli þinga, hvernig kjósendur þeirra litu á málið í heild. Ég hef m. a. rætt þetta mál á ekki færri en 13 fundum í mínu kjördæmi, og hefur málið vakið þar mjög mikla athygli. Þar hefur það verið talið, sem það og er, ákaflega mikilsvert í raun og veru og mikið menningarmál, ef því er þannig fyrir komið, að að því verði þau not, sem þörf er á. Það er mjög mikilsvert menningarlega, ef hægt er að koma hér á kynnisferðum milli stétta og ekki hvað sízt milli þeirra, sem búa nú á afskekktum stöðum í þessu landi. Það yrði til að jafna ákaflega mikið deilur, sem eru milli kaupstaðafólksins annars vegar og sveitafólks hins vegar, deilur sem mikið hefur verið gert til að auka, en ekki minnka. Þess vegna er það frá mínu sjónarmiði ákaflega mikilsvert, ef það sveitafólk og þeir bændur, sem búa við léleg skilyrði í afskekktum héruðum, fá tækifæri til að sjá, hvað lengra stéttarbræður þeirra eru komnir í búnaðarháttum í þéttbyggðustu héruðum landsins. Ég held líka, að það væri gott fyrir aðra að kynnast þessum afskekktu héruðum, þótt ekki væri nema fyrir þá, sem eiga að gera út um, hvort þeir, sem þar búa við hin erfiðustu skilyrði, eiga að fá þær umbætur, sem þeim eru allra nauðsynlegastar til þess að geta lifað þar menningarlífi.

Ég geri mig ekki ánægðan með frv. eins og það er og mun bera fram brtt. um, að ríkissjóður leggi ávallt fram a. m. k. eins mikið fé og aflast með þessu frv., ef að l. verður.

Í þessu frv. er farið inn á allt annað en á þinginu í fyrra. Hér er lagður skattur á bændur, ekki heimild til þess, heldur skylda, að leggja hann á. Sá hlutinn, sem lagður er á vöru, sem fer út úr landinu, er þó a. m. k. alltaf greiddur af bændum, og sá hluti, sem lagður er á vöru, sem neytt er í landinu, verður það í raun og veru líka, vegna þess að þess er skammt að bíða, að ekki verður hægt að setja hærra verð á vöruna en neytendur vilja greiða fyrir hana, svo að raunverulega verður þetta allt lagt á bændur. Og þetta fé fer í allt aðra átt en til var ætlazt með því frv., sem fyrst var lagt fram hér á þingi.

Ég vildi ekki láta hjá líða nú við 1. umr. að geta þessa, en sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum að sinni um þetta mál.