18.10.1943
Efri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1752)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, og voru að nokkru skiptar skoðanir í n. um málið. En þó varð niðurstaðan sú, að meiri hl. n. varð sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. með nokkrum breyt., sem sjá má á þskj. 154, og eru það meira orðabreyt. en verulegar efnisbreyt.

Eins og frv. þetta ber með sér, þá hefur hæstv. ríkisstj. snúið sér til forsvarsmanna landbúnaðarins, stjórnar Búnaðarfélags Íslands, og leitað umsagnar hennar um þessi atriði, sem frv. byggist á. Og leggur stjórn Búnaðarfélagsins til, að frv. í þessa átt verði lagt fyrir Alþ., og byggir það á því, að síðasta Alþ. hafi verið á þeirri skoðun og samþ., að sams konar löggjöf væri flutt hér á þingi og samþ. Þess vegna er þetta ósk eða vilji, sem bændastéttin eða umboðsmenn hennar ýmsir hafa flutt um það, að bændur megi ráðstafa litlum hluta af andvirði vara sinna í ákveðnum tilgangi. Og fer þetta í svipaða átt og það, sem samþ. var á síðasta þingi, að töluvert gjald væri lagt á útveginn með útflutningsgjaldi til þess að leggja til hliðar til ráðstöfunar í þessu sama skyni. Hér er ekki farið fram á fjárframlag úr ríkissjóði eða framlag, sem skiptir máli fyrir neinn annan en þá stétt, sem óskar eftir að fá þessa lögfestingu, bændastéttina. Þetta er í raun og veru lítil fjárupphæð. Það hefur heyrzt, að tryggja þyrfti betur, að ekki yrði lögð kvöð á neytendur með þessum ráðstöfunum, þannig að þetta gjald yrði álag á þá. Og brtt. n. miðar að því að skera úr um það, að hér geti ekki átt sér stað álag á neytendur varanna, heldur sé þetta gjald tekið af vörunum þannig, að framleiðendur verði að borga brúsann. Enn fremur var talið heppilegra af n. hálfu, að það væru ekki búnaðarfélög sveitanna, sem útbýttu síðast þessu fé, heldur gerðu búnaðarsamböndin það, og væri með því meira fé til umráða og gæti skipzt á þennan hátt betur niður, þannig að það væru ekki allt of litlar fjárupphæðir, sem hvert búnaðarfélag fengi í hvert skipti, heldur væri það látið í stærri skömmtum til þeirra svæða, þar sem menn hefðu tækifæri í hvert skipti til þess að fara þessar orlofsferðir. Enn fremur vakti fyrir mér og að ég held, meiri hl. n., að sú skipting, sem hér er ekki nákvæmlega ákveðin í l., heldur er reglugerðarákvæði, mundi fara fram með tilliti til þess, hvað fram færi á hverju sambandssvæði, þegar skipt væri milli sambandanna. Þetta er aðallega efnisbreyt. till. Einn nm. vildi ekki vera okkur hinum samferða í þessu máli. Hann vildi láta vísa málinu heim aftur til frekari athugunar og umsagnar í sveitum landsins. Aftur á móti tel ég tæplega ástæðu til þess, þar sem umboðsmenn bænda eru í raun og veru búnir að segja álit sitt um þetta mál á búnaðarþingi og fyrir munn Búnaðarfélags Íslands.

Ég veit, að það er nokkur fjárhæð, sem þarna kemur til skipta, og ég býst við, eftir því verði, sem er á mjólk og kjöti nú, að hún muni verða hátt á annað hundrað þús. kr. En þegar fram í sækir, má búast við, að upphæðin verði miklu lægri árlega en það. Og vafasamt getur orðið, hvort þessi l. ná svo fljótt gildi, að þessa árs framleiðsla komi undir þau. Það verður þá búið a. m. k. að selja mikinn hluta af mjólkurframleiðslu þessa árs, en að það sé rétt, að það, sem selt er af framleiðslu ársins, þegar l. öðlast gildi, komi hér undir, tel ég vafasamt.

Hér liggja einnig fyrir brtt. við frv. frá hv. þm. Barð. (GJ), en n. hefur ekki tekið afstöðu til þeirra sameiginlega. Þar er um töluverðar efnisbreyt. að ræða, og virðast mér þær brtt. þannig að efni og þó sérstaklega að sniði, að ekki sé fært að taka þær inn í frv. með því að samþ. þær. Vil ég yfirleitt mæla með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt. einum, sem n. hefur lagt til á þskj. 154.