16.11.1943
Efri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Það, sem hér er spurt um af hv. 6. þm. Reykv., var talið heyra undir fjármálaráðuneytið, sem hefur með hagstofuna og allan „status“ að gera, og þess vegna er ég ekki við því búinn að gefa svar við þessari fyrirspurn, sem hins vegar hefði verið, ef þetta hefði heyrt undir mitt ráðuneyti. En strax eftir að þessi hv. d. gerði samþ. þessa um áskorun til ríkisstj., þá var málið tekið til afgreiðslu af þeim ráðh., sem það heyrir undir, og sett í hreyfingu. En hvað starfinu líður, sem áskorunin var um, get ég, því miður, ekki upplýst. Hæstv. fjmrh. er veikur sem stendur, en ég skal bera honum fyrirspurn þessa, og má telja víst, að hann gefi hv. d. skýrslu um málið, þegar hann kemur á fætur aftur.