26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég tók einnig eftir þessu, sem sagt var í blöðunum í morgun um samfellda dagskrá útvarpsins í nær 12 klst. og einnig, að setuliðin mundu annast tímann milli kl. 13 og 14. Ég held, að það hljóti að vera klaufalega sagt frá þessu í blöðunum og að þetta sé einkum að kenna smekkleysi þeirra, sem settu þessa frétt í blöðin, og að þeir kunni ekki að gera greinarmun á dagskrá íslenzka útvarpsins og dagskrá setuliðsins. Ameríska setuliðið hefur venjulega þennan tíma í útvarpinu, og það kemur dagskrá íslenzka útvarpsins ekkert við, og hygg ég því, að þetta hljóti að vera þannig, að hin samfellda dagskrá íslenzka útvarpsins hefjist raunverulega ekki fyrr en kl. 14. Ég hygg því, að hér sé um misskilning að ræða, sem sé fyrst og fremst smekklausri frásögn að kenna. Annars hefði mér fundizt eðlilegra að haga þessu þannig þennan dag, að íslenzka útvarpið hefði haft samfellda dagskrá, sem hefði hafizt strax að loknu hádegisútvarpi.

Sem sagt, ég held, að þetta hljóti að vera misskilningur, en annars kemur það í ljós, því að hv. 1. þm. Reykv. mun nú hafa kvatt sér hljóðs, og hann getur væntanlega gefið fulla skýringu á þessu.