26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Magnús Jónsson:

Herra forseti: Það hefur ekki verið algengt, að dagskrá útvarpsins hafi verið rædd hér á Alþ., eins og nú í Sþ. í dag. Ég er því ekki undirbúinn að svara þeirri fyrirspurn, sem hér hefur komið fram. Annars skal ég segja það, að frá þessari dagskrá hefur enn ekki verið gengið alveg í útvarpsráði, og mér er ekki kunnugt um það, hvaðan blöðin hafa fengið þessa umræddu fregn. Ég las þessa fregn í blöðunum fyrst nú eftir hádegið og varð þá undrandi yfir þessu, því eins og ég sagði, þá hefur alls ekki verið gengið frá þessari dagskrá, en það mun verða fundur í útvarpsráði seinni partinn í dag til þess að ganga endanlega frá henni og ég ætlaði að bíða með frekari athugun á þessari frétt, þangað til ég kæmi á þann fund. Annars er mér að vísu ekki alveg ókunnugt um þetta mál. Ætlunin var að hafa sérstaklega þjóðlega og veglega dagskrá í útvarpinu þennan dag og þá svo, að hún yrði samfelld frá kl. 11 f. h. til kl. 24, þá hefði dagskráin hafizt með messu kl. 11, síðan hefði komið hádegisútvarp, þá ræða ríkisstjóra, síðan hefði þetta verið tengt við hátíðahöld stúdenta í háskólanum kl. 15, þá tæki svo við samfelld dagskrá úr útvarpssal í þrjá tíma, þar sem brugðið væri upp myndum úr sögu þjóðarinnar, og svo að lokum kvölddagskráir, sem lýst hefur verið. Eins og menn sjá, er hvergi í þessu tími fyrir erlenda setuliðið nema sá tími, sem er milli hádegisútvarpsins og ræðu ríkisstjóra. Í þann tíma hefur enn ekki verið fyllt upp, en nú fyrir tveimur dögum var mér sagt frá því, að ameríska útvarpið vildi gjarnan fá tíma einhvern tíma að deginum, og er þetta þá sá eini tími, sem til mála gæti komið, af þeim ástæðum. En svo er þó komið, af ástæðum, sem ég sé ekki ástæðu til að greina, að þessi tími mun einnig vera fastur.

Aðalupplýsingar mínar í þessu máli eru þær, að enn hefur ekki verið gengið frá þessari útvarpsdagskrá, og veit ég ekki, hvernig þessar upplýsingar hafa komizt í blöðin.