08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

27. mál, fjárlög 1944

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil byrja á að minnast á brtt. fjvn., sem fyrir liggja, en ekki var búið að prenta, þegar ég áður gerði grein fyrir till. n. Á þskj. 604 eru 5 brtt. Sú fyrsta er um nýjan útgjaldalið á 14. gr., 50 kr. til Guðmundar Kristjánssonar. Þessi maður er úrsmiður hér í bænum, sem hefur ákveðið að láta Háskóla Íslands hafa allmerkilegt bókasafn, sem hann á, og telur n. rétt að veita honum þessa viðurkenningu.

Næsta till. er um að verja fé til dyravörzlu við menntaskólann á Akureyri, en þennan lið vantar í frv.

Þriðja brtt. er um atvinnud. háskólans. Það hafði fallið niður að telja til frádráttar gjöldum tekjur af happdrætti háskólans, sem eru áætlaðar 25 þús. kr., og er þessi till. til leiðréttingar.

Þá er till. flutt af meiri hl. fjvn., sem ágreiningur var um í n., um að setja nýjan lið í 16. gr., verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 1943, eftir því sem þörf krefur til þess að framleiðendur fái það verð fyrir þær, sem samkomulag varð um í landbúnaðarvísitölun. síðastl. sumar. Það er ekki hægt að segja með vissu, hve háa upphæð þarf, en n. áætlar 10 millj. kr. Er þetta áætlunarupphæð, og er til ætlazt af flm., að greiddar verði þær uppbætur, sem þörf er á, til þess að framleiðendur fái þetta verð.

Það hafa þegar orðið nokkrar umr. um þetta, og þarf ég ekki að vera margorður. Ég held tæplega, að hægt sé að mæla því í gegn, að þessar uppbætur séu hliðstæðar þeim verðlagsuppbótum, sem aðrar stéttir hafa fengið á þessum árum. Verði þær ekki greiddar, verður afleiðingin sú, að þeir, sem vinna að framleiðslu í landbúnaðinum, hafa lakari kjör en aðrar vinnandi stéttir. Verðið á landbúnaðarvörum á innlendum markaði var síðastl. haust ákveðið beint með tilliti til þess, að verðuppbætur yrðu greiddar á útflutningsvörurnar. Það verð, sem samkomulag varð um í 6 manna n., var miðað við alla framleiðsluna, og var farið eftir þessu samkomulagi við verðákvörðun á innlendum markaði.

Þá er fimmta till., í nokkrum liðum, um að bæta við nýrri heimild á 22. gr. Fyrst er heimild til ríkisstj. til að verja 10 þús. kr. vegna vatnsveitu í Grímsey og til dælukaupa. Hv. 2. þm. Eyf. gerði þetta mál að umtalsefni áðan og óskaði yfirlýsingar frá mér um, að fjvn. mundi mæla með því, að sama fjárhæð yrði veitt næstu 3–4 ár. Slíka yfirlýsingu get ég ekki gefið, og mér er óhætt að fullyrða, að það er ekki vilji fjvn., að lengra sé gengið en þetta. Það hefur ekki verið venja að styrkja einstaklinga né sveitarfélög til að koma upp vatnsveitum, og ef farið yrði út í slíkt, gæti það orðið ærið útgjaldasamt fyrir ríkið, en vegna þess að þarna í Grímsey eru að ýmsu leyti óvenjulegir erfiðleikar, vill fjvn. leggja til, að þessi heimild verði samþ., 10 þús. kr. Virðist mér, að Grímseyingar ættu að vera ánægðir með þetta, þar sem það nemur allt að 1/3 væntanlegs kostnaðar, og virðist það töluverður styrkur, þegar tekið er tillit til þess, að annars er ekki veitt fé til slíks.

Þá kemur ábyrgð fyrir Ólafsfjarðarhrepp á 215 þús. kr. láni til að kaupa 2 jarðir þar. Enn fremur till. um ½ laun til frk. Kristjönu Jónsdóttur skrifstofumanns hjá fræðslumálastjóra, á meðan hún er sjúklingur. Slíkar greiðslur hafa áður átt sér stað.

Loks er till. um að heimila ríkisstj. að selja varðskipið Þór, enda verði andvirðinu varið til skipakaupa. Till. er frá meiri hl. n., en minni hl. hefur þegar flutt brtt. um að orða till. á annan veg. Útgerð Þórs hefur reynzt mjög kostnaðarsöm, og telur raunar öll n., að það muni rétt að selja þetta skip og fá annað í staðinn.

Á þskj. 610 flytur fjvn. tvær till. til breyt. á 14. og 15. gr. Önnur er um framlag til ferðakennslu í íþróttum, 6000 kr., en slíkt framlag er í fjárl. yfirstandandi árs. Hin er um 10 þús. kr. til rannsókna á síldarlýsi, og er flutt eftir tilmælum rannsóknaráðs ríkisins.

Þá vil ég næst víkja að nokkrum till. einstakra þm. og því, sem fram hefur komið um þær. Hv. þm. Ísaf. talaði um, að stórum upphæðum væri varið í uppbótargreiðslur handa landbúnaðinum, án þess að nokkur trygging væri fyrir því, að þetta fé kæmi honum að notum í framtíðinni. Hann virtist hafa miklar áhyggjur af því, að þessu fé væri illa varið. Aftur á móti kom ekkert fram um, að hann hefði áhyggjur út af fjármunameðferð annarra stétta, ekki heldur þeirra, sem hafa grætt jafnvel milljónir síðustu árin. Hann telur e. t. v. enga hættu á, að neinu af þeim fjármunum sé illa varið. Ég vil halda því fram, að þó að bændur séu eins og aðrir menn, misjafnlega hagsýnir, muni ekki hætt við, að það fé, sem þeir fá, muni eyðast frekar til óþarfa en fé annarra manna. Og það er vitað, að þrátt fyrir uppbótargreiðslur, hafa bændur ekki hærri tekjur en aðrar vinnandi stéttir.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði um nokkrar till., sem hann hefur flutt. Sú fyrsta er till. um 200 þús. kr. framlag til vegagerðar á Þingvöllum. Fjvn. leggur ákveðið á móti henni. Þrátt fyrir það, að allmikið fé er nú ætlað í fjárlfrv. til vegagerða, er áreiðanlegt, að víða er stórum meiri þörf á auknu framlagi en á Þingvöllum. Ég held, að þetta geti að skaðlausu beðið.

Þá talaði sami hv. þm. um till., sem hann flytur ásamt fleiri þm., um 70 þús. kr. til barnavinafélagsins Sumargjafar hér í bæ. Þm. talaði um mikla erfiðleika húsmæðra hér, hversu erfitt væri að fá stúlkur og hve margar húsmæður væru í vinnu utan heimilis, og því væri brýn þörf á dagheimili fyrir börn. Hann gat þess, að bæjarsjóður Rvíkur hefði styrkt þetta að undanförnu, og taldi rétt, að ríkið léti einnig nokkuð af mörkum. Það er langt frá því, að ég vilji gera lítið úr þýðingu þessa félagsskapar, en ég vil benda á, að það er nú þegar í frv. allstór fjárhæð til hliðstæðrar starfsemi einmitt í kaupstöðum. Í 17. gr. eru nú ætlaðar til kostnaðar við sumardvöl barna í sveit 150 þús. kr., og í sömu gr. til barnaheimila og barnaverndar 30 þús. kr. Þetta fé mun allt fara til kaupstaðanna og mest hingað til Rvíkur. Það er vitanlegt, að þó að margt sé um manninn hér, eru víðar börn að alast upp, og þó að ég dragi ekki í efa, að það sé erfitt fyrir húsmæður hér að fá aðstoðarstúlkur, er það ekki erfiðara en fyrir húsmæður víða annars staðar, t. d. í sveit. Ég get því ekki fallizt á, að það sé ástæða til að veita þessa fjárhæð til viðbótar.

Hv. þm. Barð. talaði bæði um till., sem hann flytur, og um fjárlfrv. yfirleitt. Einnig um skattamál og að það vanti tekjur til að mæta ýmsum gjöldum, sem fyrirsjáanleg séu. Þetta mun vera rétt, en ekki mundi batna útkoman, ef samþ. væru till. hans, því að þær eru ekki um tekjuöflun, heldur útgjaldatill., sem nema 280 þús. kr. Hv. þm. talaði um verðlækkunarskattinn sál. og eignaraukaskattinn, og sé ég ekki ástæðu til að gera þann kafla ræðu hans að umtalsefni. Hann vakti raunar athygli á því, í sambandi við tal um fé til dýrtíðarráðstafana, að hann hefði flutt till. í Ed. um að verja eignaraukaskattinum til þeirra, en sagði jafnframt, að Sjálfstfl. gæti ekki tekið þátt í fjáröflun til dýrtíðarráðstafana, ef Framsfl. ætlaði að samþ. þennan eignaraukaskatt. Þm. kvaðst hafa dregið til baka till. um framlag til að gera við prestsseturshúsin á Brjánslæk í von um, að hækkunartill. fjvn. væri borin fram í því skyni, að féð gengi þangað. Ég vil endurtaka um þá till. fjvn., að fjvn. vill hafa það alveg í hendi ríkisstj., hvernig því fé verði varið, og gerir því engar till. um það.

Hv. þm. Barð. sagði, að fjvn. hefði ekki séð ástæðu til að ræða við sig um till., sem hann flutti við 2. umr., um framlög til Barðastrandarsýslu til viðbótar. Það kom fram við 2. umr., að hv. þm. hafði lýst yfir því við tvo flokksbræður sína í fjvn., að hann væri ánægður með till. fjvn. um framlög til verklegra framkvæmda í þessu kjördæmi. Ég efa ekki, að það sé rétt eftir haft, og vil benda á, að verði þessar hækkunartill. hans samþ., þá verða ýmis önnur héruð afskipt að þessu sinni í samanburði við hans kjördæmi. Ég vænti því, að hann standi við fyrri yfirlýsingu sína um, að hann sé ánægður, og taki till. aftur.

Um till. sína um framlög til símalínu í sýslunni sagði hann, að þetta væri sennilega eina símalínan, sem ekki væri búið að leggja af þeim, sem samþ. hefðu verið 1935. Ég er ekki kunnugur víða, en ég veit, að það er a. m. k. ein lína í mínu kjördæmi, sem sett var í l. 1935, en er ekki enn farið að veita fé til.

Hv. þm. talaði að síðustu um einn veg í Barðastrandarsýslu, sem heitir Rauðasandsvegur, og sagði, að hann væri ónothæfur, því að hann væri lagður í of mikinn bratta. Hv. þm. sagði, að á undanförnum árum hefði verið veitt svo lítið fé til vega þar í sýslunni, að það hefði ekki verið hægt að senda þangað verkfróðan mann til leiðbeininga, því að hann hefði þá étið upp allt vegaféð. Mér þykir þetta nokkuð þung ásökun í garð vegamálastjóra, og kveður hér nokkuð við annan tón í hans garð frá þessum hv. þm. en nú fyrir nokkrum dögum. Nú lætur hann skína í það, að vegagerð þarna sé í miklu ólagi og jafnvel sé hætta á því, að starfsmenn vegamálaskrifstofunnar éti upp féð, sem veitt er til veganna. Það er ekki að undra, ef þannig fer um framlagið, þótt vegagerðinni miði hægt áleiðis.

Hv. 1. þm. Árn. talaði hér fyrir nokkrum till., sem hann er við riðinn. Það var sérstaklega till. hans og hv. 2. þm. Árn. um framlag til brúargerðar á Hvítá hjá Iðu. Þeir ræddu báðir um þessa till., og hv. 1. þm. Árn. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort fjvn. hefði ekki eitthvað sérstakt í huga viðvíkjandi þessari brúargerð og hvort n. teldi ekki líklegt, að hægt yrði að smíða þessa brú, áður en langt um liði. Viðvíkjandi þessu vil ég segja það, að fjvn. hefur engar sérstakar till. í sambandi við þessa brú, en ég held, að ég megi segja, að hún líti svo á, að það sé nauðsynlegt að koma þessari brú upp eins fljótt og hægt er, en jafnframt ber þess að gæta, að það er víðar þörf fyrir framkvæmdir og þessi brú kostar mikið fé, og fjvn. telur því ekki fært að samþ. þessa till., eins og nú er ástatt.

Sami hv. þm. gerði að umtalsefni till. um heimild til ríkisstj. til að greiða nokkra upphæð upp í stofnkostnað gistihúss á Stokkseyri. Fjvn. leggur á móti þessari till. Það er að vísu viðurkennt, að það sé mikil þörf fyrir gistihús á Stokkseyri, einkum í sambandi við ferðir milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar, en n. telur, að ef farið verði út á þá braut að styrkja gistihús á þennan hátt, þá verði ekki hjá því komizt að veita slíkan styrk til fleiri staða, og það gæti haft í för með sér ófyrirsjáanleg útgjöld. Ég skal ekki nefna marga slíka staði, en ég get t. d. tekið Grímsstaði á Fjöllum, þar sem, eins og öllum er kunnugt, er mjög mikil umferð þann tíma, sem Möðrudalsöræfi eru fær bílum.

Fleiri staði mætti nefna, sem líkt stendur á um, og fjvn. telur ekki fært að mæla með að byrja nú að borga þannig til stofnkostnaðar gistihúsa.

Hv. þm. Vestm. talaði um þessa till. og sömuleiðis um aðra till., sem þessir hv. þm. flytja um það að heimila ríkisstj. að gera ráðstafanir til styrktar fólksflutningum milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar með því að styrkja félag, sem annaðist ferðirnar, til þess að kaupa bát, á svipaðan hátt og gert var til styrktar ferðum um Ísafjarðardjúp. Fjvn. telur málið vert athugunar, en það þarf betri undirbúning, áður en samþ. verður till. um það. Ég vil benda á í þessu sambandi, að í till. samvn. samgm. er ætlazt til, að allmikill hluti af styrk til flóabáta, eða um 60 þús. kr., fari til þess að styrkja, þessar ferðir. Mér þykir ekki ólíklegt, að n. geti fallizt á, að einhver styrkur verði veittur til þess að kaupa skip eða bát til þessara ferða, en eins og ég gat um áðan, þá telur hún, að málið þurfi betri undirbúning og helzt að eitthvað ákveðið liggi fyrir um skip og stofnkostnað. Þannig mun það líka hafa verið, er veittur var styrkur til ferða um Ísafjarðardjúp.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði hér í dag fyrir þeim brtt., er hann flytur. Hann er fyrsti flm.till. á þskj. 599, sem fer fram á það, að hluti af fjárveitingu til Vestfjarðavegar um Þorskafjarðarheiði verði látinn ganga til bryggjugerðar á Langadalsströnd að lokinni rannsókn á bryggjustæði. Þetta virðist alveg nýtt, að ætlast til þess, að af fjárframlagi til þjóðvega, sem eru í vegalögunum, sé tekið til bryggjugerða, jafnvel þótt bryggjustæðið væri ákveðið.

Sami þm. flytur till. um styrk til starfrækslu talstöðva á afskekktum stöðum. N. getur fallizt á þetta. Þessi liður var í fjárlögum yfirstandandi árs, en hefur nú fallið niður úr frv. af vangá.

Öðru máli er að gegna með styrk til Bolvíkinga til að hafa lærða hjúkrunarkonu. N. er á móti þeirri till., enda þótt ekki sé um háa upphæð að ræða. Það virðist engin ástæða mæla með þessu, þar sem læknar eru búsettir. Öðru máli er að gegna t. d. á Flatey og Súgandafirði. Þar eru engir læknar. En ef farið væri inn á þá braut að greiða laun hjúkrunarkvenna úr ríkissjóði á stöðum, sem hafa lækna, þá mætti búast við kröfum úr öllum héruðum landsins í þessa átt, því að þörfin er ekkert meiri í Bolungavík en víða annars staðar. Þess vegna er n. á móti þessari till.

Hv. þm. Hafnf. flytur hér till. um nokkra fjárveitingu til Leikfélags Hafnafjarðar. Við hv. þm. Dal. flytjum brtt. við hana þess efnis, að þessi styrkur verði 1500 kr., og er það í samræmi við það, sem veitt er til leikstarfsemi í Vestmannaeyjum, Ísafirði og Siglufirði.

Hv. þm. V.-Ísaf. flytur till. um styrk til eflingar útgerð á Þingeyri við Dýrafjörð. Það mun vera rétt, er hann sagði, að tjón af skipatöpum muni hafa orðið þar óvenjulega mikið að undanförnu. Það hefur líka áður verið veitt fé í þessu skyni á yfirstandandi ári, og í fyrra var veitt heimild til að styrkja þá, er misst höfðu skip sín frá ófriðarbyrjun, og virðist ekki óeðlilegt, að nokkuð sé veitt nú til Þingeyrar vegna þess mikla tjóns, er þar hefur orðið. Ég tel það þó ekki hliðstætt við tjónið af jarðskjálftunum á Dalvík um árið, að því leyti, að menn höfðu ekki eignir sínar tryggðar gegn því tjóni, en skip eru venjulega í tryggingu og bætur koma fyrir þau. Hins vegar má gera ráð fyrir, að þær verði ekki nógu háar til að mæta núverandi byggingarkostnaði. Við hv. þm. Dal. flytjum brtt. um, að þessi upphæð verði ákveðin 100 þús. kr. og orðalagi till. verði breytt, m. a. er tekið fram, að þessi aukastyrkur fari aldrei yfir 25% af kostnaðarverði skipanna. Teljum við þetta eðlilegt.

Þá flytur hv. 7, þm. Reykv. ásamt fleirum till. um það að fella niður útflutningsgjaldið úr tekjubálkinum og framlagið til Fiskveiðasjóðs Íslands úr útgjaldahliðinni. N. getur ekki fallizt á þetta. Telur hún rétt, að þessar tölur standi og sjáist í fjárlögunum. Má þar benda á stríðsgróðaskattinn til samanburðar. Hann er allur talinn til tekna í fjárlögunum, eins sá hluti hans, sem gengur til bæja og sveita.

Þá flytur hv. 7. þm. Reykv. enn fremur till. um það á þskj. 599, að ríkisstj. sé heimilað að lækka útgjöld ríkissjóðs, sem ekki eru bundin í öðrum l. en fjárlögum, eftir jöfnum hlutföllum um allt að 30%, ef hún telur sýnilegt, að tekjur ríkisins muni annars ekki hrökkva fyrir gjöldum. N. getur ekki á þetta fallizt. Vil ég benda á það, að greiðslur þær, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., eru ólíkar, og má telja þær misjafnlega réttháar. Því væri e. t. v. frekar ástæða til að fella niður með öllu einstaka liði úr útgjaldahliðinni heldur en taka 30% af öðrum liðum, þótt þeir séu ekki ákveðnir í öðrum l. en fjárlögum. Slík heimild hefur að vísu verið veitt áður, en ekki komið til framkvæmda, og virðist það vafasöm aðferð að gefa fyrirheit um háar greiðslur til ýmissa framkvæmda og klípa svo af þeim á eftir. Eðlilegra væri að stilla útgjaldaliðunum í hóf í upphafi.

Hv. 7. þm. Reykv. hefur haldið því fram, að fjvn. hafi hækkað ógætilega gjaldahlið fjárlaganna. Má e. t. v. færa nokkur rök fyrir því, að n. hafi í sumum tilfellum gert till. um fullhá útgjöld. En það er eitthvað nýtt, ef hv. 7. þm. Reykv. verður til þess að prédika hér sérstaka varfærni í þessum sökum. Vil ég minna á, að við atkvgr. eftir 2. umr. fjárl. núna, þá greiddi þessi hv. þm. atkv. með till. um útgjöld, sem námu yfir 10 millj., en náðu þó ekki samþykki í þinginu, af því að aðrir þm. höfðu meiri ábyrgðartilfinningu en hann.

Hv. þm. Snæf. flytur hér m. a. till. um aukið framlag til hafnargerðar í Stykkishólmi. Auk þess flytur hann tvær aðrar till. um hækkun á framlagi til hafnargerða. N. er á móti þessum till. Hún hefur farið að ráði vitamálastjóra í till. sínum um greiðslur til slíkra framkvæmda, og lítur hún svo á, að hann sé öðrum færari til að gera till. um þessi efni, og verða þm. yfirleitt að sætta sig við það.

Sami hv. þm. vill láta styrkja tvær kirkjur. Segir hann aðra í smíðum, en flytur till. um styrk til viðgerðar á hinni. Það lítur út fyrir, að athuga þurfi sérstaklega þessi kirkjubyggingamál, því að annars er hætt við, að handahóf eitt ríki í þeim efnum. Ef meiri hluti þings er með því að styrkja kirkjubyggingar, þá þyrfti lög um þau efni, þar sem settar væru reglur um þessi mál og síðan veitt fé til þeirra eftir því. Um 5000 króna framlag til viðgerðar á Ingjaldshólskirkju er annars það að segja, að það virðist tæplega koma til greina, — jafnvel þótt hún sé gott mið fyrir sjómenn, eins og hv. flm. komst að orði.

Hv. 1. þm. Rang. flytur till. um sérstakt framlag til Inn-Hlíðarvegar í Fljótshlíð. Hér er ekki um þjóðveg að ræða, en flm. kveður hann mikið notaðan af skemmtiferðafólki, og liggi hann oft undir skriðuföllum. N. er á móti að leggja þannig fram fé til sýsluvegar. Sýslurnar fá sitt framlag úr ríkissjóði á móti framlagi úr sýsluvegasjóði.

Um till. hv. þm. Mýr. um hækkun á kostnaði við millimat (fasteignamat) get ég getið þess, að þessi matskostnaður var settur í frv. eftir till. ráðuneytisins 10000 kr.

Sami hv. þm. flytur till. um eftirlaun til kennara nokkurs. En fræðslumálastjóri hefur gefið n. þær upplýsingar, að hann hafi heitið þessum kennara fé af styrk til barnakennara, sem hættir eru störfum. Hv. þm. getur því tekið þessa till. aftur.

Hv. 6. landsk. flytur till. um framlag til brúar á Jökulsá á Fjöllum. Öllum þm. er kunnugt um það, að þessi brú verður sú fyrsta, sem byggð verður fyrir fé úr brúasjóði, og fer að líða að því, að nóg fé verði fyrir hendi til þessa. N. sér sér því ekki fært að mæla með þessari till.

Sami hv. þm. gerði að umtalsefni till., er hann flytur ásamt tveimur öðrum þm. á þskj. 609, um uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Samkvæmt þeirri till. má aðeins greiða þessar uppbætur eftir fyrirmælum laga, er sett verði um það, að uppbæturnar takmarkist við vörumagn, er samsvari afrakstri af „meðalbúi“ bænda, miðað við niðurstöður landbúnaðarvísitölunefndar. Ég hef áður rætt um þessa till. og sýnt fram á, hver áhrif það hefði, ef hún væri samþ. Ég þarf því ekki að fara um hana mörgum orðum til viðbótar, þar sem flestum mun og ljóst, hve fráleitt þetta er. Ég bendi á það til viðbótar, að samkvæmt þessu mundu bændur í sumum héruðum fá fullt verð fyrir alla sína kjötframleiðslu, án tillits til þess, hvort þeir hefðu stór eða lítil bú. Í öðrum héruðum mundi þetta aftur verða til lækkunar á kjötverðinu. Því er nefnilega þannig varið, að úr ýmsum héruðum er allt kjötið selt á innlendum markaði, svo að þeir bændur, sem þar búa, fá það verð fyrir alla vöru sína, sem samkomulag náðist um í 6 manna nefndinni. Önnur héruð flytja meira eða minna út. Afleiðingin verður sú, ef till. verður samþ., að bændur í útflutningshéruðunum fá minna fyrir afurðir sínar en bændur með jafnstór bú í þeim héruðum, sem framleiða eingöngu fyrir innlendan markað. Það mætti benda á margt fleira, sem sýnir, hve vitlaus þessi till. er.

Þegar dönsku selstöðuverzlanirnar voru hér í blóma, var það tízka að borga bændum mishátt verð fyrir afurðir sínar eftir því, hvort þeir höfðu mikið eða lítið að bjóða, en ekki eftir gæðum vörunnar. Það ranglæti, að skammta þeim, sem lítið innlegg hafði, lægra verð fyrir jafngóða eða betri vöru en hinum, sem hafði meiri viðskipti, er nú úr sögunni, samvinnufélögin hafa kveðið það niður. Nú vilja flm. till., hv. þm. Sósfl., vekja upp aftur ómenningu gömlu, útlendu verzlananna, aðeins snúa því við, svo að nú fái sá minna, sem meira vörumagn hefur. Vitanlega yrði hér ekki farið eftir efnahag, þannig að órétturinn bitni eingöngu á þeim ríku, því að sá er ekki alltaf efnaðri, sem meira hefur í veltunni, er e. t. v. með stórbú í skuld. Það er margt, sem hefur áhrif á framleiðsluna. Dugnaður og atorkusemi manna er misjöfn, og ég get ekki séð nokkurt réttlæti í því að greiða þeim manni minna fyrir hvert kjötkíló, sem leggur sig allan fram við vinnuna, en hinum, sem er framtaksminni. Ef ætti að yfirfæra þessa reglu á verkamenn og skipta þeim í stórverkamenn og smáverkamenn eftir efnahag, þá ættu stórverkamennirnir að fá minni verðlagsuppbætur á laun sín en hinir, því að verðlagsuppbæturnar til launastéttanna eru sambærilegar verðuppbótum til bændanna. Og ef skipta ætti þingmönnum í stórþingmenn og smáþingmenn, þá yrðu þeir sósíalistar og sjálfstæðismenn, sem hafa svo miklar tekjur, að þeir borga stríðsgróðaskatt, í hópi stórþingmannanna, og ættu þeir því að fá minni verðlagsuppbót á þingfararkaup sitt. Ég er hræddur um, að það gangi í mörgum tilfellum illa með framkvæmdina á þessari reglu og markalínurnar yrðu vandfundnar sums staðar í þessu efni.

Hæstv. fjmrh. gerði m. a. að umræðuefni útkomuna á fjárlagafrv., eins og honum virtist hún verða eftir till. fjvn. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að ef allar brtt. fjvn. yrðu samþ., þá mun láta nærri, að innborganir og útborganir á sjóðsyfirliti standist á. Og eru þá ekki taldar með neinar heimildartill. á 22. gr.

Hæstv. fjmrh. minntist á þá framkvæmd ríkisstj. að hækka verð á áfengi og tóbaki og það, að ríkisstjórnin hefði ætlað þann tekjuauka, sem þar fengist, til dýrtíðarráðstafana, en þá hefði fjvn. komið til sögunnar og vildi hún nú taka að sér ráðstöfun fjárins. Fjvn. er það ljóst, eða a. m. k. meiri hluti hennar, að það er þörf tekjuöflunar til dýrtíðarráðstafana, og ég held, að óhætt sé að fullyrða það, að meiri hl. fjvn. hafi verið fylgjandi frv. um verðlækkunarskatt, sem nýlega var til meðferðar hér á þinginu, og því sé minni ástæða til að saka fjvn. í því efni heldur en e. t. v. ýmsa aðra hv. þm.

Fyrir hönd fjvn. vil ég mótmæla þeim brtt., sem fram eru bornar við 18. gr. frv. Hv. Barð. flytur þar brtt. um nokkra hækkun, og sömuleiðis hv. þm. Vestm. En eftir þeim upplýsingum, sem fjvn. hefur fengið, þá hefur sá maður, sem þar er um að ræða, það miklar tekjur og eignir, að ekki virðist ástæða til þess að hækka hans eftirlaun, samanborið við aðrar greiðslur á þeirri fjárlagagr. Sömuleiðis telur fjvn. enga ástæðu til að samþ. brtt. við 18. gr. frá hv. 7. landsk. þm. (KA), um eftirlaun til manns í Þingeyjarsýslu, sem um nokkur ár mun hafa verið póstur þar. Mér er tjáð, að laun hans fyrir það póststarf hafi verið eitthvað nálægt 200 kr. á ári. Og hv. 7. landsk. þm. vill nú veita þessum manni 200 kr. eftirlaun. En maður þessi er á bezta aldri, og virðist ekki ástæða til þess að taka upp eftirlaunagreiðslur til hans að svo komnu.

Loks er ein brtt., sem ég vil gera að umtalsefni, þó að sérstaklega hafi ekki verið um hana talað af hv. flm. Það er till. á þskj. 605, sem flutt er af 4 hv. þm., og eru þeir úr 4 flokkum. Þessi brtt. er um að hækka enn verulega framlagið til skálda, listamanna og fræðimanna, en þær styrkveitingar eru á 15. gr. frv. Það munu hafa verið þessir sömu hv. þm., sem fluttu brtt. við 2. umr. um hækkun á þessum framlögum og fengu þá till. samþ. í fjárlagafrv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir því, að skáld og listamenn fái í grunnstyrk 150 þús. kr. og fræðimenn í grunnstyrk 30 þús. kr., eða samtals 180 þús. kr., og full verðlagsuppbót komi svo á þetta. í fjárl. fyrir 1943 var þetta samtals 120 þús. kr., þannig að nú er komin 50% eða þriðjungshækkun á þennan grunnstyrk. En á fjárl. fyrir 1942 var þessi fjárveiting 90 þús. kr., þannig að ef miðað er við það ár, þá er hækkunin á grunnstyrknum orðinn 100%, eða grunnstyrkurinn til þeirra, sem nú er á fjárl., er helmingi hærri heldur en hann var 1942, og ætla ég, að þar sé komin meiri grunnlaunahækkun heldur en yfirleitt hefur átt sér stað. Virðist því síður en svo ástæða til, eins og þessir hv. þm. leggja til, að bæta hér enn ofan á aukauppbót og verðlagsuppbót þar ofan á. En samkv. till. fjórmenninganna mundi upphæðin í heild hækka um nokkuð yfir 100 þús. kr., og tel ég ekki rétt að bæta slíkri upphæð ofan á, svo sem horfir um útkomu á fjárlagafrv. Ég get varla búizt við, að hv. flm. þessarar brtt. hafi gert sér grein fyrir því, hve mikil hækkun er þegar orðin á þessum lið, þegar þeir báru fram sína brtt.

Eins og ég þegar hef vikið að, munu hér um bil standast á innborganir og útborganir á fjárl., ef allar brtt. fjvn. verða samþ. En nú hafa aðrir hv. þm. borið fram brtt., sem, ef samþ. yrðu, mundu hækka útgjöld fjárl. um h. u. b. 16 millj. króna. Ég hef reiknað þetta saman. Frá einstökum þm. er einnig till. um að hækka tvo áætlunarliði tekjumegin á frv., samtals um 1½ millj. kr., þannig að ef allar þessar till. einstakra þm. væru samþ. í viðbót við brtt. fjvn., þá mundi greiðsluhalli á frv. nema 14 til 15 millj. kr., eða um 14½ millj. kr., þó að ekki sé tekið tillit til þeirra upphæða, sem ríkisstj. er heimilað að greiða samkv. 22. gr. frv. Mér sýnist því full ástæða til þess fyrir hv. þm. að fara varlega við atkvgr., þegar að henni kemur, og ljá ekki fylgi of mörgum af þeim brtt., sem nú liggja fyrir.