06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að bera þá fyrirspurn fram til hæstv. ríkisstj., hvort hún álíti, að það sé samkv. venjulegum reglum, sem gilt hafa um fréttaflutning í útvarpinu, að síðasta föstudag, 3. desember, var þar lesið upp í fréttum bréf hinna svokölluðu fjórtánmenninga, sem og hefur verið birt í blöðum. Í þessu bréfi felst frekleg ádeila á hæstv. ríkisstjórn og mjög verulegan hluta Alþ., þar sem talað er um, að ákvarðanir, sem hæstv. ríkisstj. hafi lýst sig fylgjandi og Alþ. að stórum meiri hluta hefur lýst sig reiðubúið til að framkvæma, misbjóði ýmist drengskapar- eða sómatilfinningu þjóðarinnar eða þær miði að því, að Alþ. neyði þjóðina til sundurlyndis um sjálfstæðismál hennar. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstjórn að því, — og þar sem ég sé, að hæstv. dómsmrh., sem útvarpið mun heyra undir, er ekki hér viðstaddur, vil ég mælast til þess, að einhver hæstv. ráðh., sem hér er viðstaddur, gæfi um þetta svör eða flytti hæstv. dómsmrh. fyrirspurn mína, sem ég ber hér fram nú, — ég vildi spyrja hæstv. ríkisstjórn að því, hvort þetta muni vera samkv. venjulegum reglum um fréttaflutning ríkisútvarpsins. Mér virðist sem þess megi vænta, að þegar svo er komið, að slík bréf frá einstökum mönnum eru birt í útvarpinu, — því að hér er ekki um félagssamtök að ræða, heldur einstaklingssamtök nokkurra manna úti í bæ, — þá megi vænta þess, að þær kröfur komi fram við ríkisútvarpið, annaðhvort frá pólitískum blöðum eða pólitískum flokkum, að þessu verði fram haldið, svo að gagnrýni geti komið fram gagnvart slíkum mjög svo freklegum ádeilum, sem felast í þessu bréfi, sem ríkisútvarpið hefur tekið upp í fréttatíma sínum.