06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það er í raun og veru ágætt, að hv. þm. N.-Ísf. skyldi vekja máls á þessu hér á hinu háa Alþ., hversu ríkisstj. eigi að hafa afskipti af því, þegar einstakar stofnanir ríkisins láta fram koma skoðanir, sem ekki eru í samræmi við vilja meiri hluta Alþ. og hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma. Og það gefur mér tilefni til þess, ef sá hæstv. ráðh., sem nú talaði hér síðast, vildi taka önnur skilaboð til hæstv. kennslumálarh., að gera einnig fyrirspurn og biðja hæstv. fjmrh. að bera hana til hæstv. kennslumálarh., út af því, að nú nýverið hefur það komið fyrir, að ein sú stofnun, sem heyrir undir Háskóla Íslands og er stjórnað af mönnum frá háskólanum, hefur meinað stúdentum að láta ákveðna ræðumenn tala á þjóðhátíðardegi Íslendinga, nema því aðeins, að þeir flyttu þar fram vissar skoðanir. Ég álít, að það sé mjög mikið tilefni til þess fyrir hæstv. kennslumálarh. að fylgjast með störfum þessarar stofnunar og einstakra fyrirtækja þessarar stofnunar, ef þeir beita valdi sínu á líka lund og þarna hefur fram komið. Við hælum okkur nú einu sinni af því sem lýðræðisþjóð, að háskólarnir séu fyrst og fremst vígi frjálsrar hugsunar. Og ef háskóli í lýðræðislandi ætlar að ganga á undan í að kæfa niður skoðanir einstakra manna eða meina þeim að láta þær koma fram í sínum salarkynnum, þá stefnir ekki álitlega um háskólamál á Íslandi. — Hvað virðist hæstv. ríkisstjórn um þetta?

En út af fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. um það, að flutt sé í útvarpi bréf frá ákveðnum þjóðþekktum mönnum, þar sem þeir beina áskorun nokkurri til milliþn., forseta sameinaðs þings, forsætisráðh. Íslands og þingflokka allra, þá býst ég við því, að það þætti ekki óeðlilegt, þó þjóðin fengi um það að vita, en það væri ekki kæft niður. En mér virðist einmitt sem kvörtunin út af flutningi þessa bréfs í útvarpinu sé annar þátturinn í því nýja starfi, sem hefja á nú á Íslandi, þ. e. að kefja vissan hljóm meðal þjóðarinnar, vissa skoðun, sem ekki megi koma fram. Við erum hættulega á vegi stödd, ef slíku fer fram, og því hættulegar, ef það væru hinar æðstu stofnanir, sem tækju þetta hlutverk að sér. Ég held þess vegna, að það þurfi sannarlega undan engu að kvarta við þá stofnun, sem er ríkisútvarpið, þó að hún birti slíkt bréf, hvað sem er um efni þessa bréfs annars að segja, þar sem það hefur komið fram sem tillaga mætra manna um úrlausn merkilegs máls, sem er efst á dagskrá hjá þjóðinni. Ef útvarpið á ekki að birta slíkt, þá er því allt of þröngur stakkur skorinn. Og ef hæstv. ríkisstjórn á að beita áhrifum sínum til þess að hindra, að slíkar skoðanir komi fram, þá er komið í óefni, sem ekki er gott að vita, til hvers leiðir.