10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er um skýrslu hæstv. dómsmrh., sem ég vil segja nokkur orð. Hann gat þess, að í tilefni af því, sem birtist í útvarpinu, hefði hann kallað fyrir sig yfirmann þeirra málefna og rætt við hann um það, hvað það væri óviðeigandi, að birt voru ummælin í skjali því, sem hér ræðir um.

Ég hygg, að hæstv. ráðh. sé nokkuð viðkvæmur um flutning mála í útvarpinu. Eins og kunnugt er, er útvarpað daglega fréttum frá Alþ. og ýmissa skjala þar getið. Ég tel, að 14-menningarnir beri ábyrgð á ummælum sínum, og þar sem þau eru fram komin vegna yfirlýsingar tveggja þingflokka, þá nálgist það mjög, að hér sé um þskj. að ræða, og mundi engum ofboðið, þó að lesin væru þingskjöl, þótt í þeim hafi verið ekki minni né óvarkárari fullyrðingar en í umræddu skjali.

Þetta vildi ég segja um það atriði, en hitt undrast ég, að dómsmrh. skyldi telja þetta sér óviðkomandi. Útvarp og háskóli eru hvort tveggja ríkisstofnanir, og ef ásakanir koma fram, ber dómsmrh. að rannsaka, hvort þær hafa við rök að styðjast. Mér virðist hann gera hér nokkurn mun á, þótt háskólinn sé auðvitað eins og aðrir háskólar nokkuð „automat“.

Það er í þessu sambandi aukaatriði, hvort er um réttlætismál að ræða, en ég er óánægður með, hvernig ráðherra hefur gert upp á milli þeirra fyrirspurna, sem til hans var beint. Ég tel það ekki minna atriði, að 3 prófessorar varna mönnum máls í einni háskólabyggingunni heldur en þótt lesið hafi verið upp í útvarpinu skjal með undirskrift þessara 14 manna.