26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1795)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Um frv. þetta, eins og það liggur fyrir ásamt brtt. við það var rætt svo við 2. umr., að ekki er ástæða til að fara nánar út í þau atriði. Landbn. hefur enn að nýju athugað brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 165, en það varð ekki að samkomulagi með n. og flm., að n. tæki þær upp.

En nú liggur fyrir brtt. frá okkur tveimur nm. á þskj. 245, og fer hún í þá átt, að ekki þurfi að breyta l., til þess að gjaldið geti verið tekið af fleiri vörum en talað er um í frv., þannig að gert sé að reglugerðarákvæði, hve vítt það nær, svo að heimild til rýmkunar sé fyrir hendi. Einnig verði sett reglugerð um geymslu sjóðsins, innheimtu gjaldsins og úthlutun fjárins.

Þeir, sem eru hlynntir frv., munu telja, að þessi brtt. muni vera til bóta. Enn fremur er brtt. frá hv. form. landbn. og hv. þm. Str., sem gengur út á það, að ríkið leggi fram á móti gjaldi af seldu kjöti. En um þessa brtt. er það að segja, að ég hafði ekki hugsað mér, að leitað yrði til ríkisins í þessu efni. Ég er því ekki búinn að ákveða, hvort ég greiði þessari till. atkv., þó að ég muni fremur gera það en stofna frv. í voða.

En, sem sagt, mæli ég fast með till. okkar hv. form. landbn. á þskj. 245. Vænti ég, að hinir nm. séu henni samþykkir, þótt við flyttum hana aðeins tveir. Að öðru leyti vísa ég til umræðna um þetta mál við 2. umr.