26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1796)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Páll Hermannsson:

Eins og hv. frsm. landbn. gat um, þá hef ég leyft mér að bera fram brtt. ásamt hv. þm. Str. á þskj. 253. Þessi till. er auðskilin, og þarf því ekki að útskýra hana. Það er farið fram á það í till., að ríkið leggi ár hvert í ferðasjóð upphæð á móti framleiðendum, er nemi helmingi tekna sjóðsins annars staðar að næsta ár á undan. Ég hefði nú viljað gera grein fyrir því, hvers vegna við berum fram þessa till.

Mér er það minnistætt frá síðasta þingi, að mál þetta átti þá erfitt uppdráttar og fékk sjaldgæfa meðferð og afgreiðslu. Og eftir því, sem næst verður komizt, virtist ágreiningurinn stafa af því, að margir þm. vildu leggja gjaldið á innlendar vörur, sem seldar væru í landinu sjálfu, en aðrir vildu, að ríkið legði fram fé. Það var beinlínis ágreiningur um þetta á milli d., því að þessi hv. d. samþ. málið í því formi, að ríkið legði fram fé, en því var breytt þannig í hv. Nd., að fé til sjóðsins skyldi tekið af framleiðendum eða neytendum, — það var aldrei ljóst, hvort vera skyldi, — af kjöti eða mjólk.

Mér skilst, að þetta mál eigi enn erfitt uppdráttar. Mér sýndist af atkvgr. við 2. umr., að tvísýnt væri um það, og eins hefur mér skilizt það af viðræðum við suma hv. þm.

Okkur flm. þessarar till. kom þá saman um að miðla málum þannig að leggja til, að nokkur hluti fjárins kæmi frá ríkinu, en hinn hlutinn frá framleiðendum. Ýmis rök mæla og með því. Í brtt. á þskj. 165 frá hv. þm. Barð. er farið fram á, að gjaldið sé einnig lagt á vörur, sem fluttar eru út, þannig að gjaldið legðist á bændur yfirleitt. Í rauninni væri þetta eðlilegt, ef ekki stæði þannig sérstaklega á, að viðkomandi vörur, sem útfluttar eru, eru verðbættar með háum og frægum tölum. Það virðist því næsta hjákátlegt að leggja sérstakt gjald á þær vörur, sem ríkið heldur uppi verðinu á. Aftur segja aðrir, að ekki sé réttlátt, að gjaldið sé eingöngu lagt á þá, sem framleiða fyrir innlenda markaðinn, þar eð allir eigi hins vegar að eiga jafnan rétt til fjárins. Þetta framlag frá ríkinu gæti þá skoðazt sem það kæmi í stað þess gjalds, sem annars hefði átt að leggja á útfluttar vörur, ef öðruvísi hefði staðið á.

Í þessari till. okkar er farið fram á, að ríkið leggi fram fé á móti framleiðendum, og þannig tekið kemur till. okkar til móts við till. hv. þm. Barð. Í þriðja lagi mætir þessi till. okkar hv. þm. Str. till. okkar hv. frsm. landbn.

Ég get ekki fallizt á nál. minni hluta landbn., rökst. dagskrána. Mér skilst, að þar kenni hálfvegis misskilnings. Þar er t. d. sagt, að frv. þetta eigi ekki rætur sínar meðal sveitafólksins sjálfs. Það má vera, að sveitafólkið hafi ekki allt óskað eftir því, en það er vitað mál, að samvinnufélög og önnur félög sveitafólks hafa á undanförnum árum lagt fram fjárupphæðir til hópferða, og væri vel gert að styrkja þá viðleitni. Þá segir í þessu nál., að vafasamt sé, hvaðan fé til sjóðsins sé tekið, og er talað um orðaleiki í því sambandi. Ég held, að enginn vafi leiki á því, að það séu framleiðendur, en ekki neytendur, sem leggja fram féð.

Á síðasta þingi voru samþ. l. um orlof. Afleiðingar þeirra l. hafa þegar sýnt sig í auknum ferðalögum kaupstaðabúa út um land. Ég er sízt að lasta það, það er fólkinu til góðs. En það þótti mér ljóst, er þessir hópar voru á ferð um hinar önnum hlöðnu sveitabyggðir, að gagnlegt væri að mæta sveitafólkinu á líkan hátt. Þótt margt af þessu fólki væri beztu gestir, þá er það nú svo og með öllu eðlilegt, að sveitafólkinu þætti sanngjarnt, að eitthvað væri einnig gert fyrir það. Og ég efast ekki um það, að húsmæður á sveitaheimilum þurfa fremur á því að halda að létta sér upp og sjá sig um heldur en flest annað fólk í þessu landi. Ég vil mælast til þess, að hv. d. vildi mæta þessu máli með skilningi og afgr. það. Það mun vel gert, og það mun draga dilk á eftir sér, ef það hvað eftir annað þyrfti að fá andstöðu að mæta sveitafólkinu líkt og mætt hefur verið óskum kaupstaðafólksins í þessu efni.