08.09.1943
Sameinað þing: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

27. mál, fjárlög 1944

Forseti (GSv) :

Áður en gengið er til umræðunnar, skal þetta tekið fram: Það er að vísu svo, að frv. til fjárlaga fyrir árið 1944 hefur áður verið lagt fyrir þetta þing, sem sé í öndverðri setu þess á síðast liðnu vori, af hæstv. fjármálaráðherra. Ber hann nú á ný annað fjárlagafrv. fram, sem hér liggur fyrir, og mun ætlazt til, að hið fyrra falli þar með úr sögunni, þótt komið sé það til hv. fjvn. Hefur þeim, sem að málinu standa, þótt þetta hentara, að breyttum ástæðum, heldur en að bera fram veigamiklar brtt. á þessu stigi. Er og efni málsins hið sama, hvor aðferðin sem er viðhöfð. En að forminu er þetta óvenjulegt, og mætti um það deila, hvort þingsköp ætluðust til þessarar aðferðar, en þau banna hana heldur ekki, og verður því látið við það lenda.

Í annan stað segja þingsköp í 51. gr., að útvarpa skuli framsöguræðu fjármálaráðherra um frv. til fjárlaga o. s. frv., sem einnig fór fram í hið fyrra sinnið. Þótt vafasamt sé, hvort skylda þessi nær nema til eins skiptis um fjárlög fyrir sama ár, hefur eigi þótt viðeigandi að svo vöxnu að víkja frá þessari reglu nú, með því líka, að eigi hafa þingflokkarnir komið sér saman um annað og einn flokkur a. m. k. sama sem óskað slíkra umræðna, sem þá eigi yrði frá skákað samkv. 55. og 56. gr. þingskapa. Fer því útvarpsumræðan fram.

Fyrstur talar hæstv. fjmrh., Björn Ólafsson, um það bil hálfa klukkustund; þá hv. 6. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, f.h. Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins, í hálftíma, þá hv. 2. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, f.h. Framsóknarflokksins, í hálftíma; þá hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, f.h. Alþýðuflokksins, í hálftíma; þá hv. 3. þm. Reykv., Jakob Möller, f.h. Sjálfstæðisflokksins, í hálftíma. Að lokum hefur hæstv. fjmrh. stundarfjórðung til andsvara.