26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1800)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Páll Hermannsson:

Ég held, að hv. þm. Barð. hafi misskilið mig. Ég talaði ekki um styrk til bænda, ég talaði um uppbætur á útfluttum vörum, sem að langmestu leyti er gert vegna alþjóðarhagnaðar. Og ég nefndi þetta aðeins í því skyni, að ekki væri ástæða til þess að leggja þetta á útfluttu vöruna, því að ef þeir stæðu eins að vígi, sem framleiða fyrir innlendan markað, eins og þeir, sem framleiða fyrir erlendan markað, til útflutnings, þá er þetta rétt hjá mér. En það mun nú hafa verið á þessu nokkur mismunur, því að framleiðendur, sem framleiða fyrir innlenda markaðinn, eru betur settir.

Ég held hv. 2. þm. Árn. (EE) hafi verið að gera að gamni sínu um málið og hafi ekki meint það, þegar hann talaði um, að þessar skemmtiferðir væru útreiðartúrar. Hann veit, að þetta er ekki hugsað þannig, heldur er hugmyndin sú, að það sé gagnlegt, að fólk lyfti sér upp, það fer ekki endranær svo margar ferðir úr héraði sér til fróðleiks og skemmtunar. Þegar sveitafólk sér kaupstaðabúana koma í sumarleyfum og veit, að þeir hafa 8 st. vinnutíma á dag, frí eftir hádegi á laugardögum og síðan hálfs mánaðar sumarleyfi, þá tekur það eftir þessu í önnum sínum, með 12 st. og allt upp í 15 st. vinnudag, og það hugsar um mismuninn. Það er ákaflega ánægjulegt, ef þjóðfélagið er þannig sett, að það getur borið sig vel, að vinnutími sé styttur svo mjög og orlof aukin. En það á ekki að stuðla að því, að hluti af landsfólkinu fari alveg á mis við þetta.