26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég varð dálítið undrandi yfir afstöðu hv. 8. landsk. (PM) og skildi ekki, hvað hann meinti, þegar hann talaði um, að ekki yrði unað við núverandi tilhögun á orlofi, þegar harðnaði í ári, — þá gætu atvinnurekendur ekki greitt þessi 4% af vinnulaunum í orlofsfé og ríkissjóður yrði að gera það, eða þau yrðu ekki greidd., virtist manni. Núverandi tilhögun er fyrst og fremst þannig til komin, að mjög margar stofnanir í Rvík og víðar fóru að veita sínu fólki þessi fríðindi, frí með fullum launum, og þótti það borga sig. Lögin um orlof hefðu sjálfsagt aldrei fengið eins mikið fylgi og þau fengu, ef þetta hefði ekki verið komið áður. Atvinnurekendur voru búnir að setja þetta í samninga við verkamenn og sjómenn, áður en l. gengu í gildi. Þetta yrði ekki afnumið með neinu móti. Þess vegna getur þetta ekki orðið afgerandi fyrir þm. í málinu, sem fyrir liggur.