26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1807)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi minnast á tvær brtt., sem við hafa bætzt. Brtt. á þskj. 245 get ég fallizt á og tel eftir atvikum til bóta, að hún sé samþ., að fenginni skýringu hv. flm. á málinu. Hins vegar tel ég ekki ástæðu til að samþ. brtt. á þskj. 253. Ég minnist þess ekki, að þegar málið var til meðferðar á búnaðarþingi, væri nein krafa uppi um þetta. Ég held, að það sé fullkomlega rétt, sem hv. 2. þm. Árn. hélt fram, að ekki væri ástæða til að vera að píra í bændur svona smáupphæðum í viðbót við annað. Ég tel rétt, að reynslan sýni, hvernig þetta verður í framkvæmdinni, og að því búnu verði athugað, hvort rétt sé, að ríkissjóður leggi fé fram. Orlofslögin gera ekki ráð fyrir framlögum af hans hálfu. Um það hefur þó verið talað, að eðlilegt væri, að hann legði fram fé til að greiða fyrir, að mönnum yrðu æskileg not að orlofinu og eyddu því á heppilegan hátt. Ég tel rétt að athuga svipaðar fyrirgreiðslur fyrir orlofsferðum bænda, og kemur til mála, að ríkissjóður beri kostnað af þeim að því búnu. Meðan ekkert er séð um framkvæmdina, virðist mér ekkert geta réttlætt það að samþ. brtt. á þskj. 253 og vildi helzt á þessu stigi málsins ráða flm. til að taka hana aftur.