26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Páll Hermannsson:

Mér þykir einkennilegt, ef hv. þd. getur ekki fallizt á að láta þriðjunginn af fé til kynnisferða sveitafólks koma úr ríkissjóði, fyrst ágreiningur sá, sem hún gerði um málið á síðasta þingi, var út af því einu að mega ekki láta það koma úr ríkissjóðnum allt.

Það er rétt, sem hv. 8. landsk. þm. sagði, að í dag mundi ekki fyrst og fremzst stranda á fjárhagsörðugleikum í sambandi við þessar kynnisferðir. Þó grunar mig, að þar muni vera undantekningar frá. Ég hygg, að úti um sveitir muni finnast fólk, sem einmitt vegna fjárskorts veigrar sér við því að fara í slíkar ferðir, því að ferðalög eru dýr nú á tímum. Mig grunar einnig, að það muni reka að því, að menn geti ekki alltaf veitt sér annað eins og þeir hafa gert að undanförnu, og það getur því átt sér stað, að þessar orlofsferðir verði síðar örðugar fyrir almenning.

Þessar skemmtiferðir líta líka allt öðruvísi út í augum þeirra, sem sitja í bílunum, en hinna, sem eru áhorfendur. Þá verður einnig að minnast á vegina í þessu sambandi. Það vilja allir fara um vegina, og allir þykjast eiga rétt á því, en það mun þó nokkuð hafa borið á því, einkum í sumar, að þeim, sem í lúxusbílunum sátu, hafi fundizt, að vörubílarnir ættu helzt alls ekki að vera á vegunum nema þá á sérstökum tímum, því að þeir væru þar fyrir, meðan á sumarferðunum stæði. Og þó voru margir þessara vörubíla að vinna að því að gera við vegina.