08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég er í talsverðum vafa um, hvort ég á að taka hv. þm. Barð. (GJ) sem málsvara Alþingis, þó að ég telji engan vafa á því, að hann telji sig sjálfur til þess kjörinn. Já, hér situr stj. og kúgar þingið og treður á rétti þess. Það er heldur ófögur lýsing, sem þm. Barð. gefur um ástandið hér á þinginu. Hann segir, að stj. hafi gert innrás í þingið. Það er engu líkara en stj. hafi gert vopnaða árás á þingið, eins og t. d. Cromwell ruddist inn í enska þingið. En þessi stj. hefur gleymt að taka sér í munn orð Cromwells og segja: „Þið hafið setið hér nógu lengi.“ Ef stj. hefði virkilega gert innrás á Alþingi, er ekki ólíklegt, að hv. þm. Barð. hefði fengið ástæðu til að lesa sjóferðabænina sína. Hann segir, að ég, eða stj., verði að hlíta sjálfsögðum þingræðisreglum: Ef okkur líki ekki eitthvað, ættum við að segja af okkur. Ég er honum algerlega sammála. Það hljóta að vera til einhverjar reglur um það, að hv. Alþingi og ekki sízt málsvari þess, hv. þm. Barð., taki að sér að leysa þau vandræði, sem þá kynnu að skapast. Ég efast ekki um, að hv. málsvari þingsins mundi vera fljótur að kippa ýmsu í lag, sem bæði hann og aðrir teldu, að færi aflaga hjá stj. Hann sagði, að núverandi stj. vildi ekki hafa samvinnu við þingið og af því stafaði allt það öngþveiti, sem þingið væri í. En hvað er Alþingi? Alþingi er flokkarnir. Í hverju er fólgin samvinna á Alþingi? Í samvinnu flokkanna. Þegar sú samvinna er til staðar, skal ekki skorta samvinnuvilja stj.