15.12.1943
Neðri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Út af fyrirspurn hv. 6. landsk. vil ég taka fram, að ekkert hefur verið látið ógert til að útvega vélar í mótorbáta. Þm. mun vera kunnugt um, að þegar ekki var lengur unnt að fá vélar frá Englandi, þá var sendur maður vestur til að velja vélar. Því það þótti vera að fara úr öskunni í eldinn að kaupa ólíkar og á allan hátt misjafnar vélategundir.

Nú varð ekki sá árangur af ferð þessa manns, sem æskilegur hefði verið. Þó hefur tekizt að útvega nokkuð af vélum, þrátt fyrir mjög mikla erfiðleika á því að fá þær fluttar úr landi í Bandaríkjunum vegna stríðsins.

En ég fullyrði, að ríkisstjórnin mun gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að koma þessu máli í viðunandi horf.