15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1840)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Mér finnst, að meðferðin á þessu frv. nú á þessu þingi, borið saman við það, sem fram fór um það á fyrra þingi, ætti að vera nægileg til þess að sýna hv. þm., hvers konar málefni þetta er. Um þetta mál er allt á reiki, það flækist fram og aftur milli deildanna, og ómögulegt er að vita, hvað fyrir hv. þm. vakir um aðgerðir, sem lúta að þessu máli. Mér er einnig kunnugt um, að fjöldi bænda hefur skömm á því að vera að lögskipa þessi gjöld af afurðum þeirra til þess að fara í kynnisferðir fyrir, vegna þess að þeir vilja vera sjálfráðir um ferðir sínar.

Ég fyrir mitt leyti greiði því ákveðinn atkvæði móti þessu máli vegna þeirrar meðferðar, sem það í heild hefur fengið.