07.10.1943
Efri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Tvö þeirra mála, sem hv. þm. Barð. gerir fyrirspurn út af, liggja hjá allshn. Það mál, sem hann telur meiru skipta, um breyt. á verðlagsl., hefur n. með samhlj. ályktun sent til viðskiptaráðs og verzlunarráðs. Virtust þetta eðlilegar ráðstafanir, sérstaklega þar sem þm. gat þess, að hann hefði, áður en þing hófst, átt tal við viðskmrh. um þetta mál, og á honum var að skilja, að á minni háttar atriði stæði, hvort samkomulag næðist eða ekki. Hins vegar er undir öllum kringumstæðum rétt, að aðilar láti uppi álit sitt á þessu máli sem allra fyrst, þar sem þeim hefur verið gefinn kostur á að kynna sér efni þess. Við báðum viðskiptaráð og verzlunarráð að flýta áliti sínu, en höfum ekki fengið svar enn þá. Hins vegar mun n. reka á eftir svari, ef því seinkar svo, að ástæða er til að halda, að málið af þeim orsökum fái ekki afgreiðslu á þessu þingi. Ég álít því, að allshn. eigi alls engar ávítur skilið út af þessu máli.

Viðvíkjandi máli nr. 22, um friðun Patreksfjarðar fyrir skotum, verð ég að segja, að mér finnst það ekki svo aðkallandi mál á þessnum árstíma, að það skipti nokkru, hvort það er afgreitt nokkrum vikum fyrr eða síðar. N. hefði hins vegar getað verið búin að afgreiða það, en okkur virtist hæpið, að þetta mál ætti beinlínis undir Alþ. Vildi n. láta athuga, hvort ekki væri hægt að koma málinu fyrir í lögreglusamþykkt, og í því sambandi tók einn nm. að sér að eiga viðræður við stjórnarráðið. Honum hafði ekki tekizt það, sökum veikinda, á síðasta nefndarfundi, og það er ástæðan fyrir því, að nál. hefur enn ekki fengizt. Ég vona, að þetta komi ekki að sök, vegna þess hvers eðlis málið er. Skot hljóta einkum að koma að sök á vorin, svo að það getur ekkert gert til, þótt dragist nokkrar vikur að hausti til, að frv. fái afgreiðslu eða verði samþ.