07.10.1943
Efri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Gísli Jónsson:

Ég vil þakka báðum hv. þm., sem hafa svarað fyrirspurnum mínum. Ég mun geta fellt mig við upplýsingar viðvíkjandi máli nr. 22, um friðun Patreksfjarðar fyrir skotum, en vil hins vegar minna á í sambandi við mál nr. 44, að því þarf mjög að flýta. Á síðasta þingi var því lofað af fjmrh., að með þetta mál skyldi farið eins og gert var ráð fyrir, en þetta hefur brugðizt, og fyrir það er þetta frv. nú komið fram. Þetta loforð gaf fjmrh. hér í d., þegar hann lýsti yfir, að hann væri samþykkur því, að þessar breyt. yrðu gerðar á l., og treysti ég því, að mál þetta yrði þannig framkvæmt. Er því óhjákvæmilegt annað en að flýta þessu máli. Ég er ekki að ávíta n., en álít hins vegar, að þegar mál eru send til aðila utan þings, ætti það að vera skylda n. að gefa þessum aðilum ákveðið tímatakmark, svo að þeir geti ekki tafið fyrir málum. Hvað viðvíkur máli nr. 21, vil ég geta þess, að ég átti tal við búnaðarmálastjóra um þetta, áður en ég bar það fram hér, og var hann mér þá sammála. Nú hef ég heyrt, að hann hafi haldið þessu máli allan þennan tíma, og vil ég því mælast til þess við form. landbn., að hann setji Búnaðarfélaginu ákveðin tímatakmörk viðvíkjandi þessu atriði. Því ef þetta mál nær ekki fram að ganga á þessu þingi, er það sama sem það verði óbreytt næsta ár, og það er mér alls ekki sama um.