27.09.1943
Neðri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1857)

70. mál, kvikmyndasýningar

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að vekja hér almennar umr. um þetta mál, en vildi þó ekki láta hjá líða við 1. umr. að benda á tvö atriði til athugunar fyrir þá n., sem kemur til með að athuga málið.

Eins og hv. flm. sagði, má mjög um það deila, hvort rétt sé, að bæjar- og sveitarfélög reki kvikmyndahús eða ekki. Þetta hefur nú hvort tveggja átt sér stað. T. d. á Norðurlöndum hygg ég, að það sé aðeins Noregur, sem hefur þá reglu hjá sér, að kvikmyndahúsin eru aðeins rekin af bæjarfélögunum, en annars staðar á Norðurlöndum er þetta ekki haft þannig. Og skilst mér, að sá rekstur þess opinbera sé gagnvart almenningi, hvað uppeldi og menningu snertir, að fyrirkomulaginu ákaflega svipaður í Noregi og annars staðar á Norðurlöndum. Enda er öllum vitanlegt, sem vita, hvaða myndir eru sýndar, t. d. í höfuðborgum Norðurlanda, að það eru yfirleitt sömu myndirnar, sem þar eru sýndar alls staðar og þá hér um bil samtímis.

Ef það teldist eðlilegt, að bæjarfélög rækju kvikmyndahús, þá finnst mér eðlilegast, að bæirnir reki sín kvikmyndahús sjálfir, án þess að ásælast kvikmyndahús, sem hafa verið rekin áður. Þetta hefur Ísafjarðarkaupstaður gert og Akraneskaupstaður, og Hafnarfjarðarkaupstaður ætlar að gera þetta líka.

Ég vil líka taka það fram, að mér fyndist ekkert óeðlilegt, að inn í löggjöfina komi ákvæði um, að bæjarstjórnir veiti leyfi til kvikmyndahúsrekstrar.

En það, sem mér finnst í sambandi við þetta mál hér á Alþ. og það, sem á undan hefur gengið í þessu efni, þó vera aðalgallinn á þessu frv. og sá langstærsti, er það, að hér fer löggjafinn, ef frv. verður samþ., inn á það svið að setja ótímabundna eignarnámsheimild. Ef þetta frv. yrði samþ., þá gæti hvaða bær eða sveit á landinu, þar sem kvikmyndahúsrekstur er, á hvaða tíma, sem er, með þessum tilskilda fyrirvara tekið kvikmyndahúsrekstur í sínar hendur og tekið hús og áhöld til þess eignarnámi. Það er ákaflega óeðlilegt, að svo sé gert, og ég hygg, að það sé eins dæmi, að eignarnámsheimild sé þannig ótímabundin, — því að ef menn hafa það í huga, að í stjórnarskránni stendur, að ekki megi taka eignarnámi eignir manna, nema almenningsþörf krefji, þá skilst mér, að ef leggja eigi nokkuð upp úr þessu ákvæði, þá sé það fokið út í veður og vind, ef Alþ. á að geta gefið um þessar eignir ótímabundna eignarnámsheimild. M. ö. o., það á ekki að vera á valdi Alþ. eftir þessu frv. að segja til um það, hvenær taka á þessar eignir eignarnámi, heldur á valdi bæjar- og sveitarstjórna einhvern tíma seinna að ákveða slíkt. Ég hygg, að hæstv. Alþ. hafi aldrei veitt slíka ótímabundna eignarnámsheimild eins og það mundi gera með þessu frv., ef samþ. yrði. Það er náttúrlega ljóst, hvort sem um rekstur kvikmyndahúsa eða annan rekstur er að ræða, þá legði ekki neinn í kostnað til að koma af stað slíkum rekstri, ef sá hinn sami gæti átt von á því, hvenær sem væri, að það, sem hann væri búinn að leggja í kostnað til að koma af stað, yrði tekið eignarnámi. Það væri allt annað, ef t. d. Alþ. samþ. nú, að innan eins árs mætti taka slíkar eignir eignarnámi og svo næði þessi lagaheimild ekki lengra. En það er varla rétt að hafa þessa eignarnámsheimild ótímabundna.

Annað atriði, sem ég vil benda á strax, er það, sem hv. flm. sagði, að það hefðu ekki náðst samningar um kaup á kvikmyndahúsunum hér í Reykjavík. Þetta er ekki rétt hjá hv. 1. flm. Það, sem gerðist í þessu máli, var, að bæjarstjórn sneri sér til eigenda kvikmyndahúsanna um kaup á þeim. Þá var látið fara fram mat á þeim. Þetta mat fór svo til bæjarstjórnar, eins og fylgiskjal í grg. frv. ber með sér, þar sem tekið er fram í samþ. till. frá borgarstjóra svolátandi: „Bæjarstjórnin telur ekki hagkvæmt að semja um kaup á kvikmyndahúsum h/f Nýja Bíó og h/f Gamla Bíó á . þeim verðlagsgrundvelli, er greinir í bréfum félaganna til borgarstjóra 5. og 6. þ. m.“ Þetta var skrifað í maí s.l. Þetta þýðir það, að bæjarstjórnin taldi þá ekki hagkvæmt að kaupa eignirnar eftir mati. Ef um það á að vera að ræða, að eftir eignarnámsheimild byggist eignayfirfærslan á mati, þá hygg ég, að hvorki hv. flm. frv. né heldur bæjarstjórn muni halda fram, að menn eins og Einar Erlendsson, sem teiknaði húsin, og Ólafur Jónsson og Einar Einarsson byggingameistarar, sem byggðu húsin, hafi framkvæmt matið ósamvizkusamlega. Og ég er sannfærður um, að ef yfirmat hefði farið fram á þessum eignum, þá hefði það orðið ákaflega svipað. Og einmitt það, að bæjarstjórn telur ekki hagkvæmt að semja um kaup á eignunum, sýnir, að á þessum tímum, sem nú eru, þá er bæjarstjórninni ekki hagkvæmt að kaupa þessar eignir, ef reikna á með þessu matsverði. Þess vegna er líka farið inn á þá leið í frv. að hafa eignarnámsheimildina ótímabundna, sem er algert brot á öllum reglum, sem hæstv. Alþ. hefur sett um þessi efni.

Ég vona, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, vilji athuga þetta atriði mjög gaumgæfilega. Ég hygg, að enginn almennur grundvöllur sé fyrir því að hafa slíka eignarnámsheimild sem þessa ótímabundna. Bærinn getur vitanlega með einfaldri lagaheimild tekið kvikmyndahúsreksturinn í sínar hendur. En að ásælast fasteignir manna, það er annað mál. Ég fæ ekki séð, að það sé nein ástæða fyrir Reykjavíkurbæ að taka eignarnámi þessar ákveðnu fasteignir. En það er hins vegar hægt að taka leyfið til rekstrar kvikmyndahúsa af núverandi leyfishöfum. Nú er Tjarnarbíó komið og bráðlega kemur kvikmyndahúsrekstur í þjóðleikhúsinu. Og þá finnst mér nokkuð langt gengið, með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar um verndun eignarréttarins, að taka þessi tvö kvikmyndahús út úr og taka þau eignarnámi, Nýja Bíó og Gamla Bíó. Og þar sem Reykjavíkurbær hefur um 20 millj. króna útgjöld, þá fæ ég ekki séð, að það muni neinu fyrir bæjarfélagið, þó að það ræki þessi tvö kvikmyndahús, þegar þessi hús verða að greiða skatta og skyldur, auk þess sem þau greiða sætagjöld. Þær smávægilegu upphæðir, sem afgangs væru, gætu aldrei skipt nokkru máli fyrir bæjarfélagið og almenning.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að deila um þessi mál. En ég vildi benda á þessi atriði, sem mér virðast gera það að verkum, að ekki komi til greina að samþ. frv. þetta í því formi, sem það nú er.