27.09.1943
Neðri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (1858)

70. mál, kvikmyndasýningar

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Ég er hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) sammála um það, að það er ákaflega ástæðulítið að deila um þetta mál á þessu stigi. Það er óeðlilegt, að miklar umr. fari fram um málið fyrr en það hefur verið athugað í n.

Þó er eitt atriði í ræðu hans, sem ég get ekki látið hjá líða að gera nokkrar aths. við. Hann bendir réttilega á, að bæjarstjórn Reykjavíkur hafi leitað til kvikmyndahúseigendanna og óskað samninga um sölu á þessum eignum, kvikmyndahúsunum, og að það var látið fara fram mat á þeim og að bæjarstjórn hefur ekki talið hagkvæmt að gera kaupsamninga á grundvelli þess mats. Ég get ekki látið hjá líða að benda á, að þetta mat var framkvæmt af mönnum, sem eigendur kvikmyndahúsanna fengu til þess að meta eignir þessar. Þeir geta verið hinir mestu heiðursmenn og haft vel vit á því, sem þeir voru að gera. En mikill munur er á því, hvort þeir eru að vinna þarna í þjónustu eigenda kvikmyndahúsanna eða hvort um dómkvadda menn er að ræða í sambandi við eignarnámið. Ég álít því, að þetta mat mundi ekki segja sérstaklega mikið um það, hvort bærinn teldi hagkvæmt að kaupa þessar eignir eftir mati dómkvaddra manna.

Ég gekk ekki að því gruflandi, að í sambandi við þetta mál mundi verða sagt, að ákvæði frv. gengju full nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er svo ákaflega oft, sem maður heyrir það sagt, að stjskr. sé að brenna eða brotna, ef setja á 1., sem miðast til almenningsheilla, en kunna að einhverju leyti að vera óhagstæð einstökum mönnum. Nú er skilningur manna mjög mismunandi á því, hvað sé almenn nauðsyn í þessum sökum. Og ég geri ráð fyrir, að nútímamenn leggi þó nokkuð annan skilning í það orð en menn gerðu á þeim tíma, þegar stjskr. var samin og þetta ákvæði sett í hana.

Ég er hv. 2. þm. Eyf. sammála um það, að það er hvorki fjárhagsleg nauðsyn fyrir Reykjavíkurbæ að taka Gamla Bíó né Nýja Bíó eignarnámi. Hitt gæti vel verið, að það væri menningarleg nauðsyn, að það opinbera yfirleitt bæjarfélög og sveitarfélög — tæki þennan rekstur í sínar hendur að meira leyti en nú er. Jafnframt mætti benda á, að fyrir ýmis sveitarfélög landsins gæti það verið tekjustofn að reka kvikmyndahús, þó að ég fallist á það, að fyrir Reykjavíkurbæ mundi rekstur þessara tveggja kvikmyndahúsa ekki vera neitt höfuðatriði.

Hv. 2. þm. Eyf. talaði um, að það væri miklu eðlilegra, að bæjarfélögin reistu sjálf sín kvikmyndahús. Um þetta get ég að vissu leyti verið honum sammála. Þar, sem slíkur rekstur er ekki hafinn, finnst mér bezt fara á því, að bæjarfélög og hreppsfélög reisi sín kvikmyndahús frá grunni. En hér í Reykjavík eru þegar komin þrjú kvikmyndahús og það fjórða á leiðinni að komast upp. Og ég tel vafasamt, að rétt sé að svo stöddu að stuðla að því, að fleiri kvikmyndahús komi hér upp. Það er því ekki nema um eina leið að gera að svo stöddu, ef Reykjavíkurbær á að reka þessar stofnanir, að hann yfirtaki þær eignir og sýningartæki, sem fyrir hendi eru til kvikmyndasýninga.

Skal ég svo láta útrætt um þetta mál að sinni.