27.09.1943
Neðri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1859)

70. mál, kvikmyndasýningar

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í þessu, sem hv. l., flm. sagði, sem ég vil athuga nokkuð. Hann vildi draga það í efa, að það væri byggjandi á þessu mati, sem gert var á eignunum og um hefur verið rætt, vegna, þess að það hafi verið eigendur kvikmyndahúsanna sem létu framkvæma þetta mat. Það er rétt, að eigendur kvikmyndahúsanna létu það fara fram. En ég vil þó bæta nokkru við hér, sem hv. 1. flm. frv. ætti að vera kunnugt, en hann kannske hefur gleymt. Þessi hv. þm. situr í bæjarráði. En áður en þessir matsmenn voru útnefndir, sneri ég mér til bæjarráðs og spurði, hvort það vildi hafa íhlutun um val matsmannanna. Ég veit ekki, hvort hv. flm. er búinn að gleyma þessu. (SigfS: Þetta er rétt.) En bæjarráð kaus ekki að hafa þar íhlutun. En fyrir það urðu þessir menn fyrir valinu til þess að meta eignirnar, að Einar Erlendsson teiknaði húsin, en Ólafur Jónsson og Einar Eyjólfsson byggingameistarar byggðu húsin. Það voru því engir aðrir, sem gátu vitað betur en þeir um byggingu húsanna, hve mikið í þau var lagt og hvernig þau voru byggð. Auk þess var hægt að koma sér saman um yfirmat á húsunum. Ég held því, að þetta atriði hafi ekki verið til fyrirstöðu, heldur hitt, sem er vitanlegt, að hvorki einstaklingum né bæjarstjórn mundi detta í hug að kaupa kvikmyndahúsin með því verðlagi; sem nú er. Því að jafnvel þó að þau gætu staðið undir þessu kaupverði, meðan herliðið er hér, þá mundi allt annað verða uppi á teningnum, þegar hér fækkar hermönnum í landinu. Ég veit, að hv. 8. þm. Reykv., flm. frv., hugsar það mikið um hag bæjarins, að hann mundi aldrei greiða atkv. með því að kaupa húsin fyrir bæjarins hönd við núverandi verðlagi, jafnvel þótt það yrði eitthvað lægra eftir mati en það áminnzta mat ákvað.

Ég hef heyrt talað um, að það sé menningarleg nauðsyn, að bærinn reki kvikmyndahúsin. Þessi kenning var mikið uppi, þegar Tjarnarbíó var að fá leyfið til rekstrar síns. En mér er spurn, án þess að ég ætli að gera samanburð að neinu leyti. Er nokkur munur, að því er snertir þessa hlið málsins, hvað Tjarnarbíó við kemur annars vegar, og hins vegar, að því er snertir Nýja Bíó og Gamla Bíó? Það vita allir, að þessi kvikmyndahús hafa undir svo stóra aðila að sækja um myndir og val þeirra, að það er ekki fyrir smádrengi eins og okkur að ráða miklu um það efni. Í Noregi mun þetta atriði, menningarlega hliðin á málinu, hafa ráðið nokkru um það, að kvikmyndahúsin þar eru rekin af því opinbera. En þá er hins að gæta, að hér fá kvikmyndahúsin ekki aðrar myndir til að sýna en þær, sem sýndar eru líka í Noregi og Danmörk, því að Ameríka ræður því, hvaða kvikmyndir eru filmaðar, og hin amerísku kvikmyndafirmu hafa undirskrifstofur í Stokkhólmi, og þaðan eru kvikmyndir þær fengnar, sem yfirleitt eru sýndar á Norðurlöndum. Þar er því yfirstjórnin með því, hvaða kvikmyndir eru sýndar.