08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (1869)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Það lítur nú út fyrir, að þetta litla mál ætli að taka nokkuð langar umr., ef dæma má eftir því, hvað frsm. meiri hl. hefur þótt mikils við þurfa um að rökstyðja álit sitt. Ég minnist þess ekki, að ég hafi heyrt hann halda jafnlanga ræðu nú um nokkuð langt skeið, jafnvel þótt það hafi verið um mál, sem hafa staðið hjarta hans nær en ætla mætti, að þeta mál standi, og á ég þar við mál, sem hann hefur sérstaklega beitt sér fyrir. En svo virðist sem honum þyki mikils við þurfa, því að ég hygg, að það hafi verið nær þrem stundarfjórðungum, sem hann varði til þess að verja till. þá, sem meiri hl. lagði fram.

Það er fljótséð, hvað það er, sem skilur á milli meiri hl. og minni hl., og ég ætla ekki að bæta gráu ofan á svart og verja jafnlöngum tíma og frsm. meiri hl. í þetta, því að margt af því, sem hann taldi til rökstuðnings fyrir till. sinni, tel ég ekki máli skipta. Í meiri hl. eru tveir sjálfstæðismenn, sem mér kemur ekki á óvart, en mér kom nokkuð á óvart, að slíkt álit skyldi koma frá fulltrúa Framsfl., af því að í öll þau ár, sem við framsóknarmenn og ég höfum starfað á þingi, hef ég ekki orðið var við, að Framsfl. beitti sér á móti eignarnámsheimildum, ef annaðhvort meiri hl. bæjarstjórna eða annar aðili jafnsterkur óskaði þeirra. Hér er því um einhver stefnuhvörf að ræða. Hvað langt þetta nær út í flokkinn, verður reynslan að skera úr, og skal ég ekki dæma um það að óreyndu, en ef dæma má eftir fortíðinni, á frsm. fáa fylgjendur í þeim flokki.

Það, sem um er deilt, er þetta: Á að leyfa í þessu tilfelli Reykjavíkurbæ — eignarnám á fyrirtækjum þeim, sem hér um ræðir, eða ekki? Vitanlega gildir frv. einnig alla aðra bæi og hreppa, þar sem bíórekstri er haldið uppi af einstaklingum, því að ég held, að það liggi í hlutarins eðli, að ekki sé hægt að semja l. fyrir Reykjavíkurbæ einan. Ég held, að það hafi komið í ljós, að meiri hl. í bæjarstjórn Reykjavíkur er fylgjandi þessari stefnu og að Alþingi verði við óskum um þessa heimild. Þetta mál er ekki nýtt. Alþfl. hefur frá sínum fyrsta tilverutíma yfirleitt haft það á stefnuskrá sinni, að fyrirtæki eins og þessi skuli nota til almenningsheilla, í því augnamiði, eins og bent hefur verið á, að þau væru bæði fjárhagslegur tekjugrundvöllur fyrir bæinn og til þess að skapa fullkomið og öruggt menningartæki fyrir fólkið. Eins og kunnugt er, hefur Sósfl. tekið þessa stefnu upp, eins og sjá má á því, að fyrsti flm., sem einnig er bæjarfulltrúi, er úr þeim flokki.

Nú má um það deila, eins og kom fram i ræðu frsm., sem ætlar að fara að gerast nokkurs konar leiðbeinandi Reykjavíkur í fjármálum, hvort heppilegt sé, að þetta sé gert á tímum eins og þessum. En bæjarstjórnin lítur svo á, að sé hægt að fá réttlátt mat á þessar eignir, sé sjálfsagt að ráðast í það. En eins og kunnugt er, hefur bíóunum verið haldið í svo háu verði, að ekki hefur verið talið gerlegt að lúta því, og það er þessi leið, sem bæjarstjórnir, hreppsstjórnir og í mörgum tilfellum einstaklingar hafa orðið að fara, að láta meta í hvert skipti. Ég er á þeirri skoðun, að aldrei yrði hærra mat á þessum eignum en svo, að Reykjavíkurbær mætti vel við una með það fyrir augum að geta rekið þær með góðum árangri.

Ég get skilið fulltrúa Sjálfstfl. í n., að þeir álíti, að arðurinn af þessum rekstri eigi fremur að lenda í vasa einstakra manna en í vasa bæjarbúa, og um það er stefnumunurinn, en eins og ég drap á, hélt ég ekki, að frsm. mundi fylgja þessari stefnu. Nú er það svo, að ef talað er um bíórekstur almennt hér í bænum, er ef til vill hægt að yfirfylla þann markað. Það mun vera rétt, sem frsm. meiri. hl. drap á, að hér muni vera hægt að reka fjögur bíó, en það eru ekki þessar 43 þúsundir, sem um er að ræða, heldur hefur bíóreksturinn á þrem síðast liðnum árum byggzt á hinum erlendu gestum, sem hér hafa verið, og þeim ferðamannastraum, sem hér er á öllum tímum árs. Þetta er það, sem stendur undir bíórekstrinum. Og eins og nú er háttað, veit ég, að bærinn mundi vel þola fjögur bíó, en við verðum að reikna með, að þeir tímar geti komið, að ekki verði alltaf sami gullstraumurinn á rekstri bíóanna og nú. Nú er ég að tala um þá tíma, þegar tekjur manna minnka og bænum veitir örðugt að afla tekna, en gjaldþegnum kemur illa að greiða þung gjöld. Það er almenn skoðun, að bíórekstur sé, ef ekki er offjölgað bíóum, einhver tryggasta tekjugrein bæjarfélaga, sem til er.

Við, sem viljum, að svo verði hér í Rvík, erum ekki einir um það stefnumál. Í grannlöndunum var víða stefnt að því fyrir ófriðinn, að bíóin yrðu rekin með almenningshag fyrir augum og hvað helzt rekin af bæjarfélögum. Á Norðurlöndum voru Norðmenn þar einna lengst komnir. Ekki hefur tekizt að ná til löggjafar þeirra um þau efni, en bæirnir höfðu þetta mjög á sínu valdi. Um hin Norðurlöndin er ég ekki jafnfróður. Þess var óskað, að einn úr n. kynnti sér löggjöf Norðurlanda, en lítið hafðist upp úr því og engar tillögur. Ég get ekki um það dæmt, hve myndir kvikmyndahúsanna hérna eru nærri því marki að veita þann menningarauka, sem unnt væri að fá með góðu myndavali. Að sjálfsögðu eru kvikmyndahúsin háð því, hve mikill meiri hluti mynda framleiddra í heiminum eru menningarlitlar, ef ekki beint spillandi fyrir hugsunarháttinn, og kitla bara einhverjar tilfinningar fólks.

Í n. hélt ég því fram, að hún ætti að segja já eða nei við þessu frv. En það þorði meiri hl. ekki, heldur var þetta þvælt og dregið á langinn, þangað til nýtt frv. barst eins og sending af himnum til meiri hl., það kvað vera samið af hæstv. dómsmrh., og meiri hl. ákvað að flytja það, ekki sem nýtt frv., heldur sem brtt. um að þurrka út frv., sem fyrir liggur, og setja efni hins inn í staðinn. Mér finnst aðferðin óhæf.

Hv. frsm. lagði meginþunga á það í ræðu sinni, að d. ætti að gjalda varhug við „þessari hættulega stefnu“ að taka fyrirtæki eins og kvikmyndahúsin eignarnámi. Ég held, að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugunni. Þó að Alþingi leyfði eignarnám á bíóunum, sé ég engar líkur til, að eigendur þeirra mundu falla í duftið né verða öreigar. Þeir yrðu vel efnum búnir og ekkert níðingsverk á þeim framið, þótt bærinn tæki þennan rekstur að sér, nóg önnur verkefni fyrir framtak þeirra og þeir eflaust færir um önnur störf.

Samkv. brtt. á dómsmrh. að hafa æðsta ráð um það, hvort mönnum sé leyfður kvikmyndahúsrekstur eða ekki, því að bæirnir gætu skapað sér einkarétt, ef þeir hefðu það vald og vildu beita því svo. En ekki er ástæða til að óttast það ofríki bæjanna í bráð. Í brtt. eru bæjunum ætlaðar lítilfjörlegar tekjur fyrir leyfisveitingu, og binda má leyfi því skilyrði, að greitt verði sætagjald í bæjar- eða sveitarsjóð. Þetta er engin ný réttarbót. Bæir hafa lagt á slíkt gjald, og ég ætla eigendum kvikmyndahúsanna það lögfræðivit, að þeir hefðu hrundið af sér gjaldinu, hefðu þeir getað. Við fórum ekkert út í það í n. að gagnrýna þetta himinsenda frv., núv. brtt. á þskj. 286. En sum ákvæði þess eru sýnilega of þröng. Samkv. því mega t. d. íþróttamenn ekki sýna íþróttamyndir án leyfis lögreglustjóra á staðnum, þar sem sýna skal. (GÞ: Ekki heldur nú.) Ekki hef ég orðið var við þau höft né gjöld lögð á slíkar sýningar, eins og gera má ráð fyrir eftir frv.

Það kemur oft fyrir, að eignir eru teknar eignarnámi í þágu hins opinbera, og varla hægt að tala hér um neina nýja stefnu. Um það, sem hv. frsm. tæpti á, hvort Reykjavíkurbær mundi ekki ætla sér að nota eignarnámsheimildina í bráð, get ég enga nýja vitneskju veitt. Meiri hl. sá, sem þess óskaði í bæjarstjórn Reykjavíkur, er tæpur, en standi hann óbreyttur, er það fullkomin meining hans að gera alvöru úr.

Hv. frsm. minntist á þjóðleikhúsið og kvikmyndahús háskólans. Ég efast ekki um það, að þegar þjóðleikhúsið er komið upp, verður það að fá leyfi til þeirrar starfrækslu, sem getur staðið undir rekstrarkostnaði þess. Háskólinn aflar sér tekna með sínu kvikmyndahúsi. Þetta styður þá meginhugsun minni hl. n., að kvikmyndahús eigi að vera opinber fyrirtæki og hagur af þeim að standa undir bæjarútgjöldum og kostnaði menningarstofnana, en einstaklingar eigi ekki að reka kvikmyndahúsin í Rvík né þar, sem bæirnir vilja hafa þetta fyrir sinn rekstur.

Mér var það dálítið undrunarefni, að hv. frsm., sem er í fl., sem vill að bæirnir reki kvikmyndahús, skyldi fara að berjast fyrir þessum brtt. Sem fulltrúa bænda má honum vera alveg sama um. þótt frv. gengi fram óbreytt, stefnan er ekki hættuleg. Mig uggir, að hann kunni að iðrast þess. Menningarþjóðir í kringum okkur eru að sveigjast óðum inn á þessa braut, sem minni hl. vill fara. Hugsunarhátturinn getur breytzt hér á fáum árum á þessu sviði og fleirum og stórbreytingar komið fyrr en nokkurn varir.