08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (1871)

70. mál, kvikmyndasýningar

Eysteinn Jónsson:

Ég ætla ekki að blanda mér í deilurnar um eignarnámsheimildina né frv., eins og það var borið fram. Atkvgr. sker bráðum úr þeim. En verði till. meiri hl. samþ., er þar atriði, sem ég get ekki sætt mig við og mun þá leitast við að fá breytt við 3. umr. Gert er ráð fyrir, að leyfi til kvikmyndahúsa sé veitt af ráðherra einum, raunar að fenginni umsögn bæjareða sveitarfélags. En í frv. er lagt til, að þetta sé algerlega á valdi sveitar- eða bæjarfélags. Mér finnst alveg nauðsynlegt að tryggja, að ný kvikmyndahús í einkaeign séu ekki sett á stofn án samþykkis bæjar- eða sveitarfélags. Það er hægt að hugsa sér, að ella yrðu reistar stofnanir, sem væru í mikilli óþökk þeirra bæja eða kauptúna, sem við þær ættu að búa, og slík leyfi á ekki að veita, en kynni að verða gert þrátt fyrir umsögn bæjanna. Í öðru lagi vil ég, að bæjum sé leyft að taka upp þá stefnu að hafa þennan rekstur í sínum höndum, en það er ekki unnt samkv. till. meiri hl. Með einu ráðherraleyfi mætti hindra það og eyðileggja viðleitni bæjarins. Ég vildi benda á þetta atriði strax og hef samið skrifl. brtt. um það, sem mér finnst helzt þurfa að leiðrétta í brtt. meiri hl. Býst ég þó við, að ástæðulaust sé að láta brtt. ganga til atkvæða í yrr en við 3. umr., eftir að atkvgr. hefur skorið úr milli meiri og minni hl. n., en að því búnu mætti reyna að ná samkomulagi um þetta efni.