08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1873)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Ég skal heita hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) því að vera nú stuttorður í svörum við hann, en hitt verður hann að fyrirgefa mér, þótt ég þurfi að drepa á ýmsar hliðar máls, þegar ég er frsm. þess og legg það fyrir hv. d. með eins gagngerum breytingum n. og hér er um að ræða.

Atriðið, sem hv. 2. þm. S.-M. drap á, er vert að athuga, en vel ber þess að gæta, að ef bæir eiga ætíð að ráða, hvort synja skuli um leyfi, gæti það þýtt sama sem einkaleyfi fyrir bæina, og það er dálítið annað og meira en það stefnumál Framsfl. að stuðla að því, að bæir geti rekið kvikmyndahús. En málið verður athugað.

Mér virtist hv. 4. þm. Reykv. ekki hnekkja þeim höfuðröksemdum, sem ég bar fram af hálfu meiri hl. Að undanskildum tveim atriðum í frv., einræði bæjanna um leyfisveitingar og eignarnámsheimildinni, er hægt að ná öllum tilgangi frv. á annan veg en minni hl. hugsar sér. Þetta hef ég sýnt fram á. Tekjum geta bæirnir náð af kvikmyndasýningunum. Eftirlit með myndum er hægt að hafa eins strangt og þurfa þykir, ekki er heimilt að sýna neina mynd án skoðunar fyrir fram. Frsm. minni hl. drap á, að eigendur kvikmyndahúsanna héldu þeim svo dýrum, að bærinn gæti ekki keypt án eignarnámsheimildar. Mér þætti óskynsamlegt, ef þeir hafa sett hærra verð á húsin en ætla má, að þau kostuðu nú, en ekki yrði hjá því komizt með eignarnámi að borga þau eins og nú mundi kosta að reisa þau, eða mjög nærri því. Ekki mundu matsmenn eiga að verða vilhallir. Hann lét í ljós ánægju yfir, að ekki færu eigendur kvikmyndahúsanna á vonarvöl, þótt þau yrðu af þeim tekin. Þeir mundu, hygg ég, engu eiga að tapa fjárhagslega. Annars er það aukaatriði, hvernig á hittist með einstaka eigendur, en hitt aðalatriði, hvort taka á upp þá stefnu, að enginn atvinnurekandi geti verið viss um, nema hið opinbera vilji taka eignarnámi fyrirtæki hans. Það atriði er ekki lítilvægt, hvað sem hv. frsm. minni hl. segir.

Þær menntaþjóðir, sem okkur eru skyldastar og næstar og líkastar á marga lund, hafa ekki farið leið minni hl., til dæmis Svíar, sem honum hefur stundum þótt gott að líkja eftir. Óhætt er að telja, að þeir muni kunna með þessi mál að fara eins og farsælast er og bezt hentar þeim. Ég ætla, að Danir hafi eitthvað svipað hjá sér, og ég ætla, að hv. 4. þm. Reykv. minnist líka frændseminnar við þá þjóð. En um Norðmenn segir hv. 4 þm. Reykv., — ég hef ekki séð þá löggjöf —, að bæir þar í landi hafi einkarétt á bíórekstri. Þó að svo kunni að vera, veit ég ekki, hvort þeim ferst reksturinn betur en frændum þeirra í Svíþjóð og Danmörku.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði að lokum, að það væri meining meiri hl. bæjarstj. að taka bíóin strax. En þá er ég viss um, að hún kemst ekki hjá að borga bíóin það dýru verði, að sá atvinnurekstur sé dauðadæmdur, nema bærinn borgi með honum. Ég bjóst líka við, að hv. 4. þm. Reykv. hefði í huga, að sá meiri hl., sem kynni að knýja þetta fram, er ekki ráðandi í bænum. Það yrðu andstæðingar málsins, sem fengju það í sínar hendur. Það út af fyrir sig er ekki hyggilegt, en það er mál þeirra, en ekki mitt.

Hv. þm. lézt vera undrandi yfir því, að ég sem framsóknarmaður skyldi andmæla þessu máli. En Framsfl. hefur aldrei haldið því fram, að engum nema bæjunum væri frjálst að hafa kvikmyndasýningar. Það er misskilningur hjá hv. þm., en alveg í samræmi við stefnu flokksins það, sem ég held fram.