08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég get verið hv. frsm. fjvn. þakklátur fyrir undirtektir hans undir eina af þrem till., sem ég er flm. að, sem sé till. um styrk til talstöðva á afskekktum stöðum. En því miður er ekki hið sama að segja um hinar tvær till., þó að hann hafi raunar ekki talað fyrir hönd fjvn., að því er aðra þeirra snertir, till. um framlag til bryggju á Langadalsströnd. Nú er mér kunnugt, að hv. þm. Ísaf. gerði grein fyrir því, hvernig á því stæði, að þessi till. er flutt, og hverja afstöðu vegamála- og vitamálastjóri hafa til hennar tekið, og er því minni ástæða til þess fyrir mig að ræða þá till. frekar, en ég er þakklátur hv. þm. Ísaf. fyrir hans grg. Ég vil þó taka það fram, að því fer fjarri, að hér sé að ræða um hlut, sem ekki sé á vitund vegamálastjóra eða í samræmi við vilja hans. Það er þess vegna ekki réttmætt, sem ýmsir hv. þm. hafa farið fram á og talið nauðsyn á, að þetta sé tekið inn á vegal. Hér er að ræða um efni, sem ekki heyra þjóðvegunum til, og mér finnst fjarstæða að taka slíkar lendingarbætur inn á vegal. Ég skal ekki ræða þetta frekar, en lýsi yfir því, að ég vænti þess, að þetta muni ekki kosta ríkissjóð mikið fé, og enn fremur skírskota ég til þess, að bæði vitamálastjóri og vegamálastjóri hafa rætt þetta við hv. fjvn., og hafa báðir mælt með þessari till., sem hv. frsm. fjvn. mælir gegn.

Önnur sú till., sem hv. frsm. fjvn. hefur andmælt, er um styrk til að fá lærða hjúkrunarkonu til Bolungavíkur. Hann taldi, að með þessu mundi farið inn á hættulega braut, því að mörg önnur sjávarþorp mundu koma á eftir. Það kemur úr hörðustu átt, þegar hv. þm. V.-Húnv. talar um hættulega braut í þessu sambandi, því að ég man ekki betur en einmitt hann legði fyrir nokkru út á braut, sem ýmsum þótti hættuleg, og hefur það leitt til þess, að fram hafa komið á Alþ. allmargar brtt., sem munu kosta ríkissjóð mjög veruleg útgjöld, að ríkissjóður leggi fé til nýbyggingar kirkna. Ég verð að segja, þó að ég sé ekki að mæla gegn kirkjunni, að það sé ekki hættulegri braut að veita fé til þess að veita sjúkum hjúkrun en til að hressa upp á öldruð guðshús í landinu. Ég endurtek, að ég er ekki að mæla gegn því, að sómasamlega sé séð fyrir kirkjustarfseminni í landinu, en hv. þm. V.-Húnv. ferst sízt að vera með svigurmæli um, að verið sé að leggja inn á hættulegar brautir, þó að einstökum kauptúnum sé séð fyrir nauðsynlegri sjúkrahjálp.

Ég get ekki stillt mig um að segja það að lokum, að mér fannst lítið til um ýmsar hinna persónulegu athugasemda hv. frsm. fjvn., sem hann lét sér um munn fara, bæði til mín og annarra. Ég hef ekki oft hlýtt á frsm. fjvn., en ég hef ekki áður orðið var við jafnpersónulegar athugasemdir og sérstaka andstöðu og fram kom hjá þessum hv. frsm. n. Ég vil þó ekki leggja honum það til lasts, en hér var vissulega öllu lengra gengið en hugmyndir minar stóðu til, að þörf væri á í þessu efni.

Ég vænti þess svo að lokum, að misskilningi hv. frsm. í sambandi við þessar tvær till. mínar sé að verulegu leyti eytt af þeim ummælum, sem við hv. þm. Ísaf. höfum látið falla um þetta mál.