13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

Skýrsla um olíumálið

fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Sú grg., sem hér er sett fram, er beint framhald af umr. sjútvn. Alþingis og sett fram samkvæmt ósk n. og margra þm., sem óskað hafa eftir að skýrsla sé gefin í olíumáli

Hinn 7. ágúst hófu ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði sölu á hráolíu fyrir atbeina atvinnumálaráðherra, og seldu þær olíuna á 38 aura kíló, en olíufélögin seldu sömu olíu á sama tíma 51 eyri kíló.

Áður en þetta gerðist, hafði atvmrh. átt tal við forstjóra olíufélaganna um verðlækkun á hráolíunni, án þess að nokkur árangur fengist.

Eftir miðjan ágúst óskaði viðskiptamrh. þess, að forstjórar olíufélaganna Olíuverzlun Íslands h/f og h/f Shell á Íslandi kæmu á sinn fund út af olíuverðinu hjá félögunum. Vegna þess að forstjóri annars félagsins var þá í sumarleyfi, varð ekki úr þeim samræðum fyrr en síðast í ágústmánuði.

Á þeim fyrsta fundi (föstudag 27. ágúst) skýrði ráðherra þeim frá, að hann teldi olíuverðið of hátt og óskaði að fá að vita, hvað félögin vildu gera til þess að lækka verðið, áður en ríkisstjórnin leitaði annarra ráða til að bátaútvegur landsmanna gæti fengið brennsluolíu með lægra verði en nú er. Forstjórarnir kváðust mundu athuga málið og væntanlega leggja fram tillögur sínar eftir nokkra daga.

Nokkrum dögum síðar komu forstjórarnir aftur á fund viðskmrh. og skýrðu frá því, að félögin vildu bjóðast til að lækka hráolíu um 9 aura kíló og bensín um 6 aura lítra með því skilyrði, að ríkisstjórnin sæi um, að engin olíusamlög eða nýir bensínsalar gætu keypt þessar vörur frá herstjórninni hér og að á þann hátt væru settar skorður við því, að samkeppni skapaðist um olíu- og bensínverð.

Viðskmrh. kvaðst engin svör gefa þeim að svo stöddu, en mundi taka þetta til athugunar og láta félögin vita síðar um niðurstöðuna.

Hinn 13. september boðaði ráðherrann forstjórana aftur á sinn fund og sagði þeim, að ríkisstjórnin hefði enn ekki tekið ákvörðun í málinu. En með tilliti til þess, að bátaútveginum í landinu væri mikil þörf á lækkuðum tilkostnaði vegna dýrtíðar og sérstöðu um fiskverð, væri ríkisstjórnin þeirrar skoðunar, að lækka bæri í hráolíuna meira en félögin hefðu boðið, jafnvel þótt bensínverðið þyrfti að haldast óbreytt til þess að ná því takmarki. Sagðist ráðherra vilja láta lækka hráolíuna um 15 aura kíló um allt land, en slík lækkun mundi nema að fjárhæð svipað því, sem félögin höfðu boðið samanlagt fyrir hráolíu og bensín.

Forstjórarnir tóku þessu ekki illa, en kváðust mundu verða að bera þetta undir viðskiptafélög sín í Bretlandi, ef slík krafa yrði fram sett af ríkisstjórninni. En þeir tóku jafnframt fram, eins og þeir höfðu áður gert, að slíkar ráðstafanir af þeirra hendi væru háðar því, að samkeppni yrði útilokuð á markaðinum. Um það vildi viðskmrh. engar skuldbindingar gefa, og þar með lauk þeim fundi.

Um þetta leyti höfðu ríkisstjórninni borizt umsóknir frá olíufélögum úti á landi um að fá keypta hráolíu beint frá flotastjórninni frá stöðvum hér á landi, en verðið þar hefur verið og er enn 17½ eyri kíló. Við það bætist flutningur og tollur. Við flutning á olíugeymi í Reykjavík er sá kostnaður 2.2 aurar á kíló, og kostar þá olían á geymi í Reykjavík 19,7 aura kíló. Kostnaður á olíunni til Siglufjarðar er 10.3 aurar kíló, og verður því olíuverðið þar á geymi 27.8 aurar kíló.

Verð olíufélaganna undanfarið á hráolíu hefur verið þetta: Reykjavík og Hafnarfjörður 46 aur. kíló, Akranes, Keflavík 49 aur. kíló, annars staðar á landinu 51 eyr. kíló.

Hér var um svo mikinn mismun að ræða, að ekki var við unandi. Hins vegar var verðlækkunartilboð félaganna með öllu óaðgengilegt með þeim fyrirvara, sem því fylgdi, vegna þess að það hefti frjálsræði útvegsins um olíukaup til ófriðarloka eða lengur.

Vegna þess að hér var um stórmál að ræða fyrir smábátaútgerðina í landinu, taldi ríkisstjórnin sjálfsagt að bera málið undir sjávarútvegsnefndir beggja deilda Alþingis.

Fundur var því haldinn 17. sept. með báðum nefndum, en málið ekki útrætt. Annar fundur var haldinn 21. sept., og varð sú niðurstaða einróma, að þess bæri að krefjast, að félögin lækkuðu hráolíuverðið nú þegar um 15 aura kíló og að þeim væri engar skuldbindingar gefnar um útilokun samkeppni.

Hinn 23. sept. ritaði viðskmrh. olíufélögunum svo hljóðandi bréf:

„Út af samtölum, er viðskiptamálaráðherra hefur átt undanfarið við forstjóra yðar um verðlækkun á hráolíu, vill ráðuneytið taka þetta fram:

Ráðuneytið álítur, að hægt sé að lækka verð á hráolíu um allt land um 15 aura hvert kíló, án þess að hækkað sé verð á öðrum olíum eða bensíni, og beinir því þess vegna til félaganna, að þau láti slíka lækkun koma til framkvæmda fyrir 30. þ. m.

Það væri að sjálfsögðu æskilegt, að verð á bensíni og öðrum olíum gæti einnig lækkað, þótt að svo stöddu verði ekki sett fram krafa um slíka lækkun, nema í sambandi við væntanlega verðjöfnun milli söluaðila.

Í sambandi við málaleitun yðar um það, að ráðuneytið tryggi yður, að engum nýjum aðila verði leyft að verzla með ofangreindar vörur, skal það tekið fram, að ráðuneytið vill engar skuldbindingar gefa í því efni.

Ráðuneytið væntir þess að meðtaka svar yðar við ofanrituðu fyrir 27. þ. m.“

Svar kom frá olíufélögunum 29. sept. Í því hafna þau málaleitan viðskmrh. um þá verðlækkun á hráolíunni, sem hann fór fram á. En í niðurlagi bréfsins skýra þau frá því, að þau hafi í dag (29. sept.) fengið tilkynningu um, að miklar breytingar séu að verða á öllum olíuflutningum til Íslands og að kostnaðarverð félaganna muni stórhækka vegna hækkunar flutningsgjalda. Telja þau því rétt að bíða átekta, unz nánari upplýsingar fást, og lækka ekki núverandi verð, heldur nota hinar ódýrari birgðir til síðari verðjöfnunar.

Breytingar þær á olíuflutningum til landsins, sem greinir í bréfinu, töldu forstjórarnir, að væri í því fólgnar, að Bretar mundu taka olíuflutningana í sínar hendur aftur og við það mundu flutningsgjöldin hækka. Var talið líklegt, að breyting þessi mundi komast á í byrjun nóvember.

Næsta dag hélt ríkisstjórnin fund með sjávarútvegsnefndum beggja deilda þingsins, og var þeim skýrt frá svari félaganna. Að afstöðnum þeim fundi fól viðskmrh. viðskiptaráði að lækka verð á hráolíu, bensíni og ljósaolíu þannig:

Hráolía lækki um 90 kr. tonnið, ljósaolíuverð lækki um 85 kr. tonnið og bensínverð lækki um 6 aura lítr.

Eftir að verðlækkun þessi var auglýst af verðlagsstjóra, birtu olíufélögin greinargerð í Morgunblaðinu 3. okt. Í þeirri greinargerð er skýrt frá því, að félögin hafi ætlazt til, að olíuverðið yrði lækkað í ágúst. Þessi staðhæfing er ekki í samræmi við verðútreikning, sem verðlagsstjóra barst frá félögunum 1. ágúst síðastliðinn, þar sem sýnt er fram á, að félögin þurfi þá að fá eftirfarandi verð fyrir vörur sínar:

Bensín í Reykjavík 0.71 eyr. ltr. kíló. Ljósaolía í Reykjavík 0.63 aura ltr. kíló. Ljósaolía úti á landi 0.70 aur. ltr. kíló. Hráolía í Reykjavík 0.47 aur. ltr. kíló. Hráolía úti á landi 0.52 aur. ltr. kíló.

Þetta er miðað við innkaupsverð í maí og júní, sem enn er óbreytt.

Það, sem greinargerð félaganna að öðru leyti gefur tilefni til leiðréttingar, vísast til þess, er sagt er hér að framan.

Þannig höfðu viðskipti ríkisstjórnarinnar og olíufélaganna farið fram til 3. okt. 1943 um verðlag á olíu og bensíni.